Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[16:00]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir svarið og fyrir að eiga orðastað við mig. Ég árétta það að ég styð tillöguna heils hugar og nefni aftur að þetta er eitt af því sem við í Viðreisn lögðum áherslu á fyrir síðustu kosningar og viljum gjarnan sjá að komist til framkvæmda.

Mér finnst gott að við séum að ræða þetta í samhengi við heimsfaraldur en við getum líka rætt þetta í samhengi við að hér í þinginu fór fram heillöng umræða um hvað við ættum að eiga til af neyðarbirgðum af lyfjum í landinu, ef kæmi upp neyðarástand sem kallar á viðbragð hvað varðar orku og margt fleira. Samfélagið er alltaf hálfpartinn að búa sig undir neyð með virkum aðgerðum, a.m.k. í orði kveðnu ef marka má það sem forsætisráðherra fór yfir í gær, og vilja til að undirbúa okkur undir slíkt. Þá skilur maður ekki hvers vegna það er svona flókið að nota hugtakið neyðarástand um afleiðingar þess sem við ræðum um, að jörðin verði nánast óbyggileg.

En mig langaði að spyrja hv. þingmann að því, þegar við tölum bara um táknræna hlutann af þessu, hvort það sé ekki einfaldlega þannig að það er alveg sama hvaða stefnu menn hafi í útfærslum á því hvernig eigi að bregðast við loftslagsvánni, menn geta engu að síður sameinast um að það sé neyðarástand og brugðist við óháð því hvort þeir séu til hægri eða vinstri í pólitík?