Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[16:03]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar bara að taka undir með hv. þingmanni að þó að okkur kunni að greina á um aðferðirnar til að vinna úr þessu neyðarástandi eftir pólitískum áherslum, ímyndunarafli eða hverju sem er — ýmislegt setur aðgerðum okkur skorður — þá skiptir máli að við sammælumst um að þetta sé eitt af þeim málum sem eiga að vera í algjörum forgangi þegar kemur að stefnu og aðgerðum stjórnvalda, hvort sem er á þingi, í ríkisstjórn, sveitarfélögum eða annars staðar. Með því að lýsa yfir neyðarástandi þá gerum við það. Fyrst er það táknræn aðgerð en síðan verður hún til þess að hafa áhrif á framkvæmd úti um allt og með ólíkum hætti eftir því hvar við stöndum.

Vegna þess að hér var vísað til umræðu um neyðarbirgðir sem sprettur upp úr vinnu þjóðaröryggisráðs þá er kannski ágætt að nefna að nú eru loftslagsmál komin á allt annan stað en þau voru fyrir örfáum árum þegar þessi ríkisstjórn var mynduð. T.d. efast ég um að þá hafi loftslagsmál verið á dagskrá hvers einasta leiðtogafundar NATO. Svo er í dag vegna þess að NATO metur loftslagsógnina sem einn af þeim áhrifaþáttum sem hafa áhrif á allar aðrar ógnir sem hernaðarbandalagið hugsar um, „crisis amplifier“ eða krísumagnari heitir það, með leyfi forseta. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna mætir síðan varla á fund án þess að hvetja ríkisstjórnir til að taka þessi mál fastari tökum. (Forseti hringir.) Þetta er bara á stóra sviðinu og við þurfum að lýsa því yfir á þessu sviði hér að þetta sé eitt af stóru málunum hjá okkur.