Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[16:25]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég má til með að koma í stutt andsvar til að þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir að nefna misréttið sem ríkir á milli okkar sem búum hér norðan til á hnettinum og erum í hópi auðugri ríkja og þeirra sem eru sunnan til á hnettinum og eru enn að vinna úr þeirri sögu að hafa verið nýlendur hinna ríkjanna. Þetta teygir sig í rauninni þangað. Allt það óréttlæti sem við sjáum í dag, í loftslagsmálum ekki síst, á rætur sínar að rekja í rasisma og nýlendustefnu fyrri alda. Það er ekki fjallað um alþjóðavíddina í greinargerð þessarar tillögu og þess vegna mjög mikilvægt að hv. þingmaður hafi komið inn á þetta hér í umræðunni, líka vegna þess að þetta verður væntanlega aðalatriðið á aðildarríkjafundi loftslagssamningsins sem er haldin í Egyptalandi núna í haust, það sem er kallað í samningaviðræðum „loss and damages“, með leyfi forseta, sem er ekki hægt að kalla neitt annað en skaðabætur. En ríku löndin eru alltaf að reyna að víkja sér undan því að axla þá ábyrgð sem þau bera og meira að segja að axla þá ábyrgð sem þau eru búin að segjast ætla að axla. Þannig er kannski nærtækasta dæmið 100 milljarðar bandaríkjadala, sem var samþykkt á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn forðum daga að ríku löndin myndu mæta með að borðinu til að hjálpa hinum fátækari að komast í gegnum grænu umskiptin. Ég man nú ekki hvaða tölur voru nefndar á síðustu ráðstefnu en ég held það hafi skort svona fimmtung upp á, það skiluðu sér 70 og 80 milljarðar af þessum 100 og mjög stór hluti þess fjármagns var þannig eyrnamerktur (Forseti hringir.) að hann rann aftur til ríkjanna þaðan sem peningurinn kom í atvinnustarfsemi innan þeirra. Hér er því mikið verk að vinna.