Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[16:28]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og hér hefur komið fram á þetta misrétti sér mjög djúpar rætur. Þriðja iðnbyltingin hófst í Bretlandi eins og við vitum. En hvernig breiddist hún út og hvernig urðu þessi heimsveldi, þessi nýlenduveldi, rík? Með því að arðræna náttúruauðlindir og mannauð nýlendanna, fólksins í nýlendunum og í rauninni flytja þau til framleiðslu í Bretlandi o.s.frv. Það á auðvitað við um önnur nýlenduríki og gömlu heimsveldin. Þetta er löng og því miður oft mjög ljót saga. En við verðum að skilja hvernig auður iðnveldanna og Vesturlandanna varð til, til þess að skilja hvaðan fátæku löndin eru að koma í samtalinu um loftslagsbreytingar. Þau þekkja þessa sögu langbest og tala einmitt um skaðabætur, um skuldina, um það hvernig þau lönd sem bera mesta ábyrgð á sögulegri losun gróðurhúsalofttegunda, verði að greiða þennan reikning. Ég stend með þeim löndum í þeirri baráttu og hef alltaf gert og ég held að það sé engin leið að ná árangri, ef við ætlum að reyna að koma í veg fyrir hamfarahlýnun af verstu sort, nema við náum samtali og samkomulagi á milli norðurs og suðurs, ef við búum til mjög einfalda mynd af jörðinni, og gerum okkur grein fyrir því að þeirra verkefni eru okkar verkefni og við verðum að fjármagna þau.