Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[16:40]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni yfirferðina og koma inn á nokkra punkta sem ég vék kannski ekki mikið að sjálfur. Mig langaði aðeins að tala um gagnsæi vegna þess að það er eitthvað sem ég held að sé lykilatriði í öllum aðgerðum sem snerta loftslagsmál og að það sé akkúrat atriði sem metnaðarminni ríkisstjórnir, og líka ríkisstjórnir sem þykjast vera metnaðarfullar en eru ekki eins metnaðarfullar og þær segjast vera, nota sér markvisst til að kasta ryki í augun á almenningi.

Nú ætlaði ég að hafa með mér grein sem ég las um daginn frá henni Gretu okkar Thunberg um loftslagsmarkmið sænskra stjórnvalda, af því að ég þykist vita að hv. þingmaður hafi sérstakan áhuga á Svíþjóð. Þar benti Greta á að stór hluti af losun Svíþjóðar er hvergi talinn fram. Það eru nefnilega ýmsar undanþágur á þessum alþjóðasamningum varðandi það hvað þarf að telja fram. Eitt dæmi er t.d. að losun frá hernaði þarf ekki að telja fram samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Það má gera það en fæst lönd gera það. Þó er hernaður talinn bera ábyrgð á sirka 6% af losun heimsbyggðarinnar. Það er jafnmikið og allt alþjóðaflug. Nóg tölum við um alþjóðaflugið en þarna er bara jafn stór losunarvaldur sem er hvergi á blaði. Eins hafa sænsk stjórnvöld ekki gert nóg af því að ræða útfluttu losunina, þá losun sem felst í neyslumynstri okkar í ríku löndunum sem er talin fram á reikning framleiðsluríkja. Kína og Indland bera þá losun sem í rauninni er til komin vegna okkar neyslu. (Forseti hringir.) Vandinn hér er meiri en svo að við náum utan um hann í landsáætlun einni sér. (Forseti hringir.) Ísland ætti að fara fram með góðu fordæmi (Forseti hringir.) og mæta á þessa fundi og berjast fyrir því að bókhaldið yfir heiminn verði mun gagnsærra.