Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

fjarvinnustefna.

213. mál
[17:19]
Horfa

Flm. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessi sjónarmið en ég held líka að hluti af því hve þreytt við urðum á fjarvinnunni heima við eldhúsborðið hafi verið að akkúrat á sama tíma voru okkur allar aðrar félagslegar bjargir líka bannaðar. Við vorum ekki — mér skilst að saumaklúbbur sé orðið að skammaryrði í íslenskri tungu í dag, heyrði það frá íþróttaþjálfara — að rækta þessi félagslegu tengsl að öðru leyti. Upplifunin af fjarvinnu á þeim tímapunkti — það var margt jákvætt þar — var líka erfið vegna þess að það var svo margt annað sem fylgdi sóttvarnatakmörkunum. En ég hef heyrt það sem þingmaðurinn nefnir með að mörg fyrirtæki — og ekki síst hef ég lesið í fréttum erlendis frá að einhvern veginn sé verið að kalla fólk aftur til starfa eins og það hafi ekki verið að störfum. Ég held að þetta sé líka einhver menningarbreyta um þetta gamla góða, að halda að það sem maður ekki sér eigi sér ekki stað.