Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

fjarvinnustefna.

213. mál
[17:21]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er margt ágætt við þessa hugmynd og þingsályktunartillöguna og mjög fínt að þetta sé rannsakað.

Mig langar að koma inn á nokkur atriði. Þegar við fengum sveigjanlegan vinnutíma með svokallaðri sítengingu þá virðist vera að þeir sem starfa á þess konar vettvangi séu í vinnunni allan sólarhringinn. Sérstaklega á Íslandi höfum við ekki borið gæfu til að skapa vænlegt umhverfi fyrir starfsfólk sem er með þessa sítengingu og sveigjanlegan vinnutíma sem nær í raun yfir allan sólarhringinn. Ég hef dálitlar áhyggjur af því að það sama verði uppi á teningnum með sveigjanlega vinnustaði, að það verði minna öryggi fyrir starfsfólk og að vinnuveitandinn sleppi því mögulega að hafa vinnustað til reiðu o.s.frv.