Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

fjarvinnustefna.

213. mál
[17:26]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mikilvægt mál. Tímarnir eru sannarlega breyttir og eitt af því sem mér hefur fundist mjög athyglisvert, eigandi marga vini og ættingja sem vinna víða um heim, er að víða fór allt yfir í það að vinna heima og þegar tilslakanir hófust eftir Covid þá var mjög algengt að það væri annaðhvort engin skylda að koma í vinnuna eða jafnvel bara einn eða tvo daga í viku. Á Íslandi fórum við eiginlega alla leið til baka strax og við gátum.

En af því að hv. þingmaður nefndi opinbera geirann og stofnanir þá veit ég að stofnanir erlendis hafa t.d. byrjað að hugsa meira um að leyfa fjarvinnu. Eitt ráðuneyti hérlendis státar sig mikið af því að bjóða störf án staðsetningar. Ættu ekki sem flest störf hjá hinu opinbera að vera án staðsetningar, alla vega fyrir þau sem geta valið um það?