Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

fjarvinnustefna.

213. mál
[17:27]
Horfa

Flm. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta mjög áhugaverður punktur hjá hv. þingmanni. Ég nefndi nú reyndar í grein sem ég skrifaði um daginn í tengslum við þetta þingmál að mér finnst verulega góður bragur á þessum takti sem sleginn er hjá ráðherra nýsköpunarmála og hennar ráðuneyti. Það er oft þannig að þegar maður heyrir eitthvað sagt þá heyrir maður einnig hið ósagða. Þá velti ég einmitt fyrir mér: Ætti Stjórnarráðið allt ekki að vinna eftir þeirri góðu stefnu sem hæstv. ráðherra nýsköpunarmála gerir? Aftur tönnlast ég á þeim fyrirvara að þetta á vitaskuld ekki jafn vel við um öll störf og starfsgreinar en þó alveg ofsalega mörg. Fyrir fámennt ríki eins og Ísland, hér er ein borg og byggðir í kringum eyjuna, felast í þessu alveg ótrúlega mörg tækifæri.