Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

fjarvinnustefna.

213. mál
[17:36]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka fyrir þetta góða mál. Með leyfi forseta:

„[...] byggðir verði klasar í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs út um landið til að tryggja betur framgang hugmyndafræðinnar um störf án staðsetningar. Sett verði í forgang því tengt að þróa skattalega hvata til að flýta þeirri uppbyggingu svo klasar eða samvinnuhús rísi sem víðast. Aðstöðuleysi má ekki koma í veg fyrir að störf á vegum hins opinbera og einkaaðila verði til á landsbyggðinni.“

Svo hljóðar texti í málefnastefnu Framsóknar. Framsókn hefur í áraraðir talað með því að við séum með skýra og öfluga stefnu í fjarvinnu eða störfum án staðsetningar og formaður Framsóknar, þá sveitarstjórnarráðherra en nú innviðaráðherra, lagði áherslu á í ræðu sinni á ársfundi Byggðastofnunar á Siglufirði 2019 að ráðuneyti og stofnanir auglýsi störf án staðsetningar eins og best verður á kosið og það er líka hluti af stefnumótandi byggðaáætlun.

Þessi stefna hefur ratað inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að störf hjá ríkinu verði ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega. Í júní 2021 skrifaði sveitarstjórnarráðherra undir samning við Sigtún þróunarfélag um mikilvægt tilraunaverkefni sem felst í því að byggja upp vinnustofu, eins konar klasa, í gamla Landsbankahúsinu á Selfossi. Í þessari vinnustofu gefst þeim sem búa á Suðurlandi og sækja vinnu hjá ríkinu á höfuðborgarsvæðinu eða bara hjá einkaaðilum tækifæri á að starfa alla vinnuvikuna eða hluta hennar í heimabyggð. Með þessu var stigið stórt skref í þróun þess sem í stjórnarsáttmála var nefnt störf án staðsetningar og má í raun segja að nýr vinnustaður hafi opnað á Selfossi síðasta sumar. Störf án staðsetningar eru ný hugsun í stofnanakerfi ríkisins, hugsun sem skilur starfsemi frá steinsteypu og veitir fólki tækifæri til að starfa í heimabyggð, þeirri byggð sem þeim og fjölskyldum þeirra líður best. Störf án staðsetningar skapa tækifæri til að nýta hæfileika fólks hringinn í kringum landið og fá sjónarmið ólíkra landshluta á sterkari hátt inn í starf stofnana ríkisins. Tilraunaverkefnið á Selfossi veitir þeim sem búa á svæðinu tækifæri til að stunda vinnu sína án þess að þurfa að leggja á sig langan akstur yfir heiði sem getur verið farartálmi, sérstaklega yfir vetrartímann.

Í verkefninu fólst og felst að starfsmaðurinn minnkar akstur verulega með tilheyrandi lífsgæðaaukningu, því fæstum okkar þykir einstaklega gefandi að sitja löngum stundum í bíl. Þá tekur kolefnisbókhald starfsmannsins einnig stakkaskiptum með slíkri breytingu. Störf án staðsetningar er hugmyndafræði sem veitir byggðum landsins stórkostleg tækifæri til að vaxa og dafna. Það samstarf sem fólst í sameiginlegri undirritun ríkis, sveitarfélags, Samtaka atvinnulífsins og einkaaðila á Selfossi færði stefnuna um störf án staðsetningar af hugmyndastigi og yfir í markvissar aðgerðir og uppbyggingu.

Virðulegi forseti. Við þurfum að líta til tækifæranna í hverri byggð sem byggist upp á sérstöðu og styrkleikum hvers samfélags fyrir sig á þeim stað sem um ræðir. Aukin fjarskipti og tækniþróun opnar enn frekar á möguleika þess að tryggja byggð um allt land og að fjölskyldur geti valið sér búsetu alveg óháð því hvar höfuðstöðvar starfs viðkomandi eru.

Eitt langar mig þó að leggja áherslu á í máli mínu hér í dag. Það er samt sem áður mikilvægt að við hugum að þeim byggðasjónarmiðum sem liggja að baki. Hvers vegna erum við að gera þetta? Er það ekki til að tryggja byggð um allt land og við séum meðvituð um að það er mikilvægt að þetta sé til að tryggja að við getum líka búið utan höfuðborgarsvæðisins? Þar sem framboð opinberra starfa er þunnt og sums staðar ekkert að það sé ekki hægt að taka þessi störf af landsbyggðinni og færa þau aftur til Reykjavíkur þar sem þorri starfanna er nú þegar og jafnvel líka starfsstöðvar starfsins? Það er mikilvægt að við séum með öfluga og skýra stefnu í þessum málum og að hún sé heldur ekki hverful eftir því hver tekur við viðkomandi stofnun, það verði sett ákveðin skylda á stofnanir ríkisins þegar kemur að því að tryggja framboð starfa án staðsetningar. Það er og mun alltaf vera landsbyggðinni til heilla. Ég styð þetta mál.