Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

fjarvinnustefna.

213. mál
[17:42]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli, mikilvægi fjarvinnu. Mér fannst ekki annað hægt, í ljósi þess að við erum að ræða þetta hér á þingi, en að tilgreina það sem hæstv. ráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, er að gera þar sem boðið er raunverulega upp á störf án staðsetningar og ráðherrann ferðast sjálfur um landið og staðsetur sig á mismunandi stöðum í hverri viku. Þetta sýnir svo sannarlega að stjórnsýslan þarf ekki alltaf að vera í 101 Reykjavík, bara alls ekki. Ég held að það sé alveg ljóst að það sé búið að opna á þennan möguleika með því sem verið er að gera í þessu ráðuneyti og ég vona innilega að fleiri ráðuneyti og fleiri stjórnsýslustofnanir taki það upp.

Ég ætla að taka undir það sem hér hefur komið upp varðandi þau góðu áhrif sem þetta getur haft á landsbyggðina, en getur líka haft á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. það dregur úr mengun og dregur úr umferð á helstu álagstímum þannig að álagið verður breytilegra. Ég held líka að í fjarvinnu felist tækifæri til að fólk geti sniðið störfin meira að sínum þörfum og þörfum fjölskyldu sinnar og það kemur inn á stöðu barna og dagvistun barna. Ég held að fjarvinna sé af hinu góða þar sem henni verður við komið. Ég tek auðvitað undir með þeim sem sagt hafa hér að auðvitað hentar þetta ekki fyrir öll störf, það er bara svoleiðis.

Mér finnst líka ástæða til að benda á það, virðulegur forseti, að við hér á Alþingi tókum svo sannarlega upp fjarvinnu á nefndarfundum en höfum svo bakkað allverulega. Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að ég var mjög hlynnt þeim breytingum sem við gerðum þegar við opnuðum á fjarfundi nefnda. Ég var ósátt við þær miklu takmarkanir sem við settum inn í þingsköpin eftir að Covid lauk. Þegar rætt er um fjarvinnu þá held ég að það sé líka ágætt að við horfum í eigin barm og veltum því fyrir okkur hvað sé hægt að gera hér. Það er svo sannarlega þannig að þingmenn eiga að vera í þessum sal og halda ræðu frá þessu púlti og greiða atkvæði í þessum sal. Því verður ekki breytt, en það er vel hægt, á fundum nefnda, að sitja á fjarfundi. Ég verð bara að segja að ég skil ekki af hverju Alþingi Íslendinga þarf að vera að amast við því og að þingmenn geti ekki verið á fjarfundi nema eftir einhverjum mjög ströngum skilgreiningum í þingsköpum. Mig langaði að varpa því fram í umræðunni að við gætum líka horft til þess. En annars þakka ég fyrir góða umræðu og ég held að það sé alveg tímabært að við skoðum þessi mál.