Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

breyting á lögum um tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda.

18. mál
[18:51]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda eða reiknað endurgjald. Í greinargerð segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að kveðið verði skýrar á um skyldu einstaklinga til að reikna sér endurgjald vegna umsjónar og umsýslu með fjárfestingum í eigin félagi.“

Fjöldi rekstraraðila í skattgrunnskrá og þeirra einstaklinga sem gera grein fyrir rekstri í skattframtölum bara stemmir ekki og virðist sem svo að reglur um reiknað endurgjald sem kveða á um skyldu fólks til að reikna sér endurgjald vegna eigin atvinnurekstrar sem og vegna vinnu í þágu lögaðila, séu ekki virt sem skyldi. Fyrir þessu geta verið ýmsar ástæður. Benda má á það skattalega hagræði sem felst í því að einstaklingar reikni sér lægra endurgjald en sem nemur reglum og viðmiðum í von um að safna upp hagnaði innan eigin félags og greiða sér þess í stað út arð. Þá virðist sem svo að mikill fjöldi félaga hafi engan rekstrarlegan tilgang og gruggi þannig vatnið, ef svo má að orði komast.

Í þessu samhengi má benda á niðurstöðu rannsóknarinnar „Álagning rekstraraðila: Hver er afraksturinn“ frá 2022 sem byggir á gögnum um álagningu tekjuskatts og tryggingagjalds á árunum 2015–2020 og sýnir að gríðarlegur fjöldi rekstraraðila er óvirkur í skattalegu tilliti. Í greinargerð frumvarpsins er vísað til þessa og segir að félög sem hvorki greiða tekjuskatt né tryggingagjald séu óvirk í skattalegu tilliti. Rannsóknin sýnir að slíkum félögum er að fjölga en álagðir skattar á félög standa nánast í stað í nafnverðskrónum meðan fjöldi rekstrarframtala eykst um 20% yfir þetta rannsóknartímabil. Þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að tekjur til ríkissjóðs af hverjum rekstraraðila lækka. Þá sýnir rannsóknin enn fremur að 71% rekstraraðila greiða engan tekjuskatt, um 55% rekstraraðila greiða engin laun í starfsemi sinni og um 42% rekstraraðila greiða hvorki tekjuskatt eða tryggingagjald vegna launa og hafa ekki fólk á launaskrá. Það eru því rúmlega 18.000 félög sem teljast óvirk samkvæmt ofangreindri skilgreiningu. Rétt er að árétta hér í ræðu, líkt og gert er í greinargerðinni, að það eitt og sér segir svo sem ekki til um fjárhagsleg umsvif félags en þau geta átt miklar eignir og haft umtalsverð umsvif þótt engum skatti sé skilað. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að umtalsverður fjöldi félaga mun vera með starfsemi í svo litlum mæli að hún teljist ekki sjálfstæð samkvæmt skilyrðum fyrir reiknuðu endurgjaldi.

Bent hefur verið á að reglurnar séu flóknar í framkvæmd. Samkvæmt viðmiðunarreglum um reiknað endurgjald eru átta starfaflokkar ásamt undirflokkum. Ákvörðun fjárhæða miðast við almenna launataxta sem ákvarðaðir eru ár hvert. Í skýrslu stýri- og sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa hjá einstaklingum og fjölskyldum frá 2019 segir um þessa framkvæmd að starfaflokkun og undirflokkun þeirra hafi, með leyfi forseta, „engan veginn fylgt þeirri þróun sem átt hefur sér stað í íslensku atvinnulífi síðan þær voru teknar upp í lok áttunda áratugarins“.

Í greinargerð þessa frumvarps er sjónum beint að einstaklingum sem sinna fjárfestingum á vegum félags í sinni eigu þar sem ekki er augljós rekstrarlegur tilgangur annar en sá að hafa tekjur af eignum í eigu félagsins, svo sem til að hagnast af fé með eignarhaldi og viðskiptum með hlutabréf eða eignarhlut í öðrum félögum, svo sem eignarhalds- og fjárfestingarfélögum — ég ætla nú ekki að halda því fram að það sé auðvelt að lesa í gegnum þetta — og starfsemi sem ekki er sérstaklega vikið að í starfaflokkun áðurnefndra viðmiðunarreglna. Markmiðið er sem áður að koma í veg fyrir að hluthafar og hlutaðeigendur félaga geti komist hjá því að reikna sér endurgjald eða ákvarða sér endurgjald sem er langt undir því sem almennt gæti talist eðlilegt endurgjald fyrir sambærilega umsjón eigna og fjárfestinga í þágu þriðja aðila. Ekki er um að ræða eiginlega efnisbreytingu á lögum sem varða reiknað endurgjald heldur er verið að útvíkka ákvæðið svo það innihaldi umsjón og umsýslu í gegnum félag vegna eignarhalds á fasteignum, eignarhluta í öðrum félögum og um sölu og kaup hlutabréfa í þágu eigenda sinna.

Virðulegi forseti. Skattar eru grundvallarþáttur í tekjuöflun ríkissjóðs. Það gefur augaleið að umfang óvirkra félaga er ekki í nokkru samræmi við tekjuöflunarhlutverk skattkerfisins og vekur upp spurningar um hvort allur sá fjöldi sem skilar inn skattframtölum eigi í raun að vera hluti af þessu skilgreinda skattkerfi eða hvort umbóta sé þörf til að auka yfirsýn og eftirlit. Ef gæta á jafnræðis í skattlagningu getur engin tegund starfsemi verið undanþegin tekjuskatti hvort sem um ræðir einstaklinga sem starfa í eigin þágu og á vegum félags eða önnur rekstrarform. Hér skiptir því mestu máli að hvatar skattkerfisins stuðli að hlutleysi milli skipulagsforma, að allar atvinnugreinar og tegundir starfsemi séu skattlagðar jafnt og hvatar myndist ekki til að skipulagsform ráði för um hvernig tekjur séu skattlagðar enda getur slíkt leitt til freistnivanda eins og ég hef áður rakið. Það er ekki hægt að ætlast til þess að skattkerfið sinni hlutverki sínu ef ákveðin starfsemi í þágu eigenda sinna býr við tekjuskattsfrelsi. Í því tilliti er eðlilegt að lög nái utan um umsjón og umsýslu þeirra sem annast óvirk félög og hafi af því tekjur í gegnum félag sem og að reglur um reiknað endurgjald inniberi slíka starfsemi. Ætla má af orðalagi núgildandi lagaákvæða um reiknað endurgjald og framkvæmd þeirra að meginþorri þeirra sem eiga félög verði ekki fyrir áhrifum af þessari lagabreytingu, ekki síst í skjóli þess að starfsemi þeirra sé að slíku undirmáli að hún teljist ekki sjálfstæð samkvæmt skilyrðum fyrir reiknuðu endurgjaldi eins og bent er á hér að ofan.

Virðulegi forseti. Við þurfum líka að skoða hvernig álagning rekstraraðila lítur út í kringum okkur. Það er mjög mikilvægt í þessu samhengi að safna sambærilegum upplýsingum og bera saman við þessar niðurstöður sem komu fram í fyrrgreindri rannsókn. Það er von okkar sem leggjum fram þetta frumvarp að það leiði til umbóta á þeim þætti reiknaðs endurgjalds sem ég hef hér farið yfir.

Að lokinni umræðu um þetta mál legg ég til að því verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.