Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 14. fundur,  13. okt. 2022.

staða Sjúkrahússins á Akureyri.

[11:00]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Undanfarin misseri hefur verið talað um þröngan húsakost dag- og göngudeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri er einnig veitt samsvarandi þjónusta. Ég tek undir að húsnæði dagdeildar Landspítala er löngu sprungið en húsnæði dagdeildar á Sjúkrahúsinu á Akureyri er líka löngu sprungið. Hvergi er næði eða pláss fyrir aðstandendur og lítið sem ekkert hægt að hreyfa sig eða eiga trúnaðarsamtöl sem eru hverjum einstaklingi nauðsynleg. Ef við skoðum starfsemistölur SAk frá janúar til september þá má sjá að rúmlega 8.500 einstaklingar hafa fengið þjónustu á göngudeild, þar af 1.559 einstaklingar vegna krabbameinslyfjagjafar en sú þjónusta fer stöðugt vaxandi. Í reglugerð um heilbrigðisumdæmi og hlutverk starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa segir að SAk sé ætlað að veita annars stigs heilbrigðisþjónustu og að einhverju leyti þriðja stigs þjónustu. Einnig segir að SAk sé ætlað að þróa öfluga dag- og göngudeildarþjónustu. Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig hann ætlar að bregðast við þeirri þröngu stöðu sem nú blasir við Sjúkrahúsinu á Akureyri.