Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 14. fundur,  13. okt. 2022.

staða Sjúkrahússins á Akureyri.

[11:04]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið og ég fagna því að hann er líka með á nótunum úti á landi. Það er nefnilega þannig að í hverri einustu viku ársins njóta u.þ.b. 50 sjúklingar þjónustu dagdeildarinnar á SAk sem að öðrum kosti þyrftu að fara suður til að hitta sérfræðinga með tilheyrandi kostnaði og umstangi. Það má heldur ekki gleyma því í þessari umræðu að það eru Sjúkratryggingar Íslands sem ákveða hversu oft einstaklingur getur sótt þjónustu til Reykjavíkur. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki kominn tími til að snúa þessu við og setja í samninga að læknar eigi að þjónusta ákveðinn fjölda íbúa landsins þar sem þeir búa?