Bráðabirgðaútgáfa.
153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

Fjármögnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

[11:14]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir að vilja eiga orðastað við mig og þingheim um þetta málefni sem ég óskaði eftir, um fjármögnun heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Heilsugæslan er mjög mikilvægur hlekkur sem fyrsti viðkomustaður heilbrigðisþjónustu og þarf að hlúa að sem slíkum. Á heilsugæslu er þjónusta veitt í nærumhverfi og er hún ætluð sem fyrsti viðkomustaður flestra sjúklinga og tappa þá af álagi á öðrum og jafnvel dýrari stöðum í heilbrigðiskerfinu.

Í byrjun árs 2017 var tekið í gagnið nýtt fjármögnunarkerfi fyrir heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og það var þáverandi heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Kristján Þór Júlíusson, sem ýtti því úr vör. Með breytingum á fjármögnun heilsugæslunnar var ætlunin að fjármagn til reksturs endurspeglaði þann sjúklingahóp sem viðkomandi heilsugæslustöð þjónaði. Markmiðið var að færa inn í rekstur heilsugæslunnar faglega og fjárhagslega hvata til að stuðla að betri þjónustu, hagkvæmari rekstri og gera heilsugæslunni kleift að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Grundvallarforsendur endurbótanna fólust í gjörbreyttu fyrirkomulagi við fjármögnun þjónustunnar þar sem markmiðið var að umbuna fyrir skilvirka og góða þjónustu í samræmi við þarfir notenda. Fjármögnunin byggir á því að fjármagn til rekstrar hverrar stöðvar endurspegli þann sjúklingahóp sem heilsugæslan þjónar. Þá fylgir fjármagnið sjúklingnum — ef hann færir sig á aðra heilsugæslustöð fylgir fjármagnið með. Markmið breytinganna var að auka gæði og skilvirkni þannig að grunnheilbrigðisþjónusta væri veitt í meira mæli á heilsugæslustöðvum og það hefur þegar skilað árangri þar sem hlutdeild veittrar þjónustu á heilsugæslustöð jókst í heildargrunnheilbrigðisþjónustu og þá fjölgaði skráðum einstaklingum heilsugæslustöðva og þúsundir fluttu sig yfir á aðra heilsugæslustöð sem hentaði þeim betur. Þá hefur líkanið gert fjármögnun heilsugæslunnar gagnsærri og raunsærri. Þó að fjármögnunarkerfið sé kannski ekki fullkomið er greinilegt að það er skref í rétta átt frá því sem áður var, en sníða verður agnúa af kerfinu þannig að veitendur þjónustu og þeir sem nýta hana lúti sömu leikreglum og fjármögnun allra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu byggi á sömu forsendum óháð rekstrarformi þannig að allir sitji við sama borð, hvort sem reksturinn er opinber eða á hendi einkaaðila. Þó að stefnt hafi verið að því þá hefur það sýnt sig að það lúta ekki alveg allir sömu leikreglum sem myndar að mínu viti ósanngjarna skekkju á milli þessara aðila.

Sem dæmi má nefna að Landspítali tekur að sér að framkvæma ýmsar rannsóknir fyrir hönd heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, t.d. blóðrannsóknir, en Landspítalinn verðleggur þessar rannsóknir ekki jafnt fyrir allar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Opinberar stofnanir þurfa ekki að kaupa tryggingar heldur eru bætur vegna tjóna í starfsemi þeirra greiddar úr ríkissjóði. Aðrir sem sinna opinberri þjónustu eins og einkareknu heilsugæslustöðvarnar þurfa að kaupa tryggingu fyrir sinn rekstur og greiða eigin ábyrgð á tjónum af rekstrarfé. Ríkisreknar heilbrigðisstofnanir geta fengið endurgreiðslu á virðisaukaskatti af þjónustu sem aðrar heilsugæslustöðvar njóta ekki. Opinberar heilsugæslustöðvar þurfa að fylgja lögum um opinbera starfsmenn en ekki er tekið tillit til kostnaðar vegna lífeyrisskuldbindinga opinberra starfsmanna í fjármögnunarlíkaninu. Kostnaður vegna sérstakra verðlags- og launabóta, kostnaður vegna launahækkana ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga í kjölfar gerðardóms og viðbótarkostnaður vegna heimsfaraldurs Covid-19, svo dæmi séu tekin, hefur verið greiddur fram hjá fjármögnunarlíkaninu.

Forseti. Þetta eru aðeins nokkur dæmi af mörgum sem valda því að notendur standa ekki jöfnum fótum þegar kemur að vali milli heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og það safnast þegar saman kemur. Til að gæta að því jafnræði sem stefnt var að, gæta að því að jafnræði sé örugglega fyrir hendi, er mikilvægt að rýna fjármögnunarlíkanið með þessi atriði í huga svo tryggja megi sem jöfnust tækifæri notenda, starfsfólks og heilsugæslustöðva til að nálgast og bjóða upp á sem besta grunnheilbrigðisþjónustu.

Forseti. Þótt það kannski taki ekki allir undir þá skoðun mína að hagkvæmni í rekstri skipti miklu mál, og ég tala nú ekki um að hið opinbera eigi helst ekkert að vasast í öðru en því sem er algerlega nauðsynlegt en eftirláti öðrum að taka við þeim byrðum sem þeir geta og valda vel, þá erum við væntanlega öll sammála um að það hvernig tekst til að veita þjónustuna skiptir máli. Í því ljósi er rétt að hér komi fram að í ánægjumælingum með þjónustu heilsugæslunnar raða þær einkareknu sér efst á blað. Þær eru nauðsynlegur hluti af heilbrigðisþjónustu höfuðborgarbúa og verður að passa upp á þær sem slíkar. Ég hlakka til að hlusta á umræðuna hér.