Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

Fjármögnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

[11:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir þessa umræðu og heilbrigðisráðherra. Ég held að almennt þegar einstaklingur ætlar að fara á heilsugæslu þá sé það honum ekki efst í huga hver eigi að fjármagna hvað heldur hvenær hann fái þjónustuna og hvernig. Á síðasta ári held ég að ég hafi tvisvar reynt að panta tíma á heilsugæslu og í annað skiptið þurfti ég að bíða í mánuð og í hitt í einn og hálfan mánuð. Sem betur fer þá gat ég reddað því með því að sleppa að mæta á þessum tíma og fór inn á Heilsuveru og reddaði málunum þar. En það geta það ekki allir. Þess vegna verðum við að sjá til þess að fjármögnunin sé ekki eitthvað sem hindrar, ef einhver getur haldið úti heilsugæslu, einkarekinni, fyrir sama fjármagn og opinber, þá er það bara hið besta mál. Við eigum ekki að vera að setja okkur í þær skotgrafir. Ef heilsugæslu væri lokað í dag þá segi ég bara guð hjálpi okkur, miðað við tímann sem það tekur að komast til læknis á heilsugæslu í dag þá yrði það algjörlega óásættanlegt. Ef við horfum aftur í tímann, nokkra áratugi, þá fékk maður tíma á heilsugæslustöð bara einn, tveir og þrír, tíma hjá lækni samdægurs. Maður var eiginlega hissa ef maður þurfti að bíða einn dag. Í dag verður maður hissa ef maður fær tíma innan mánaðar. Og hvernig er staðan annars staðar í heilbrigðiskerfinu, biðlistar, lyfin? Allt farið. Einhvern veginn er ástand í gangi sem enginn virðist bera ábyrgð á og enginn virðist ætla að bretta upp ermarnar og koma þessum hlutum í lag. Það er það sem við erum að biðja um, að heilbrigðisþjónustan sé í lagi og við getum treyst á hana.