Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

Fjármögnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

[11:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Heilsugæslan er eitt af því mikilvægasta, tel ég, sem við höfum í okkar góða heilbrigðiskerfi sem þessi fyrsta stoppistöð, sem flestir sem kenna sér einhvers meins koma á. Ég tel lykilatriði, þegar kemur að heilbrigðisþjónustu og því hvernig við hugsum hana, að heilbrigði eða sjúkdómar fólks eigi ekki að vera gróðaafl fyrir einhverja aðila. Það er sjálfsögð og eðlileg og góð þjónusta í velferðarsamfélagi að fólk geti fengið góða heilbrigðisþjónustu í sínu nærumhverfi og svo verið vísað áfram innan kerfisins ef þörf er á frekari inngripum. Mér finnst skipta máli að halda þessu grundvallarprinsippi til haga. Svo við vitum við líka að það er skortur á læknum og hjúkrunarstarfsfólki, alls konar starfsfólki í heilbrigðisgeiranum, og því fjölgar ekki þó svo að einkarekna kerfið verði aukið. Við höfum ekki meiri mannafla. Hins vegar gæti verið að þekkingin smyrjist þynnra. Ég tel mikilvægt að við höldum áfram að efla Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Það er verið að taka fleiri þætti þar inn eins og til að mynda sálfræðiþjónustu (Forseti hringir.) og um það ætla ég að ræða frekar í minni seinni ræðu á eftir.