Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

Fjármögnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

[11:41]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Heilsugæsla á Íslandi hefur ávallt átt stóran þátt í því hvernig við horfum á heilbrigðiskerfið í heild sinni. Hún er iðulega fyrsti viðkomustaður þegar fólk leitar heilbrigðisþjónustu og mikilvægt að við hana sé stutt. Líkt og víða annars staðar í kerfinu hefur heilsugæslan glímt við læknaskort. Reynt hefur verið að bregðast við þeim mönnunarvanda og er það nú að bera árangur. Það var virkilega ánægjulegt þegar fréttir bárust af því að aldrei hefðu fleiri stundað sérnám í heimilislækningum en nú. Í dag eru 95 læknar skráðir í nám í heimilislækningum en til samanburðar voru þeir 38 árið 2017. Frá þeim tíma hafa að jafnaði 7–8 læknar útskrifast úr heimilislækningum ár hvert og því afar gleðilegt að geta sagt frá því að við sjáum fram á umtalsverða fjölgun og við bestu aðstæður munu 57 læknar ljúka sérnámi í heimilislækningum á næstu þremur árum. Vissulega eru margir heimilislæknar að hætta sökum aldurs en þetta er svo sannarlega skref í rétta átt. Þá hefur síðastliðin ár verið lagt í markvissa vinnu við að reyna að efla heilsugæsluna með áherslu á hlutverk hennar sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðiskerfinu. Liður í því hefur verið að fjölga sérnámsstöðum í heimilislækningum og styrkja umgjörð námsins en sérnám í heimilislækningum tekur um fimm ár. Sérnámslæknar eru ráðnir til heilsugæslunnar og eru nú um 60% þeirra starfandi á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu en 40% þeirra hjá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Ég vísa til orða ráðherra í ræðu sinni hér áðan og tek undir að það hefði slæm áhrif á heilbrigðiskerfið í heild sinni ef heilsugæslustöðvum yrði lokað. Ég hef líka fulla trú á því, þegar ráðherra segir að aftur á móti yrði þjónusta við einstaklingana alltaf tryggð, að þá standi þau orð og efndir fylgi. Við þurfum líka að vera óhrædd við að ræða og skoða alvarlega möguleika einkarekinnar heilsugæslu sem hefur reynst vel og engin ástæða til að halda að það muni ekki halda áfram að ganga vel að útvíkka netið og tryggja þessa grundvallarþjónustu sem er landsmönnum svo mikilvæg. (Forseti hringir.)

Að lokum langar mig að nefna að þessi mál eiga jafnframt við á landsbyggðinni.