Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

Fjármögnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

[11:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég held ég hafi endað hér áðan á að tala um hvernig þjónusta hefur verið að aukast á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og raunar á heilsugæslum. Ég tel það virkilega mikið af hinu góða en auðvitað þarf að fylgja fjármagn með því. Ég held að það eigi að halda áfram í þessa átt, að sjá hvað eigi heima inni á heilsugæslunni, almenningi til hagsbóta.

Eitt af því sem hér er mikið rætt, eðlilega kannski, er fjármögnunarlíkan þegar kemur að heilsugæslunni. Eitt af því sem ég myndi halda að gæti verið gagnlegt inn í þá umræðu væri að fá almennilega greiningu á því hvað það er sem einkarekna heilsugæslan er að gera versus opinbera heilsugæslan, til að mynda varðandi þjónustu en líka það að til að mynda er Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins að sinna rannsóknum, tekur virkan þátt í kennslu og starfsþjálfun og það kallar auðvitað á aukin umsvif þegar verið er að þjálfa fólk eða rannsaka. Mér finnst mikilvægt að allt sé tekið með þegar verið er að bera saman hluti.

Ég vil að lokum ítreka að mér finnst gríðarlega mikilvægt að til þess að hægt sé að veita sem besta þjónustu megi heilbrigði fólks aldrei verða gróðaþúfa annarra. (Forseti hringir.) Þetta er samfélagsþjónusta sem á að veita á samfélagslegum grunni (Forseti hringir.) en auðvitað þannig að kjör þeirra sem starfa í heilbrigðiskerfinu séu góð og fólk vilji vinna þar.