Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[12:28]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrsta skrefið er að klára vinnuna við þetta frumvarp og koma því í gagnið frá 1. janúar og byrja þannig að safna raunverulegum upplýsingum. Þannig getum við klárað vinnuna sem við erum að vinna í öðrum starfshópum til að fylgjast með hvernig við getum hugsanlega stillt skrúfurnar.

Síðan svaraði hv. þingmaður hinu aðalskrefinu en það er framboðið. Það vantar fleiri íbúðir, bæði á leigumarkaðinn en líka á húsnæðismarkaðinn. Það er kannski sú skakka mynd sem er í gangi í dag, að það eru miklu fleiri um að leigja íbúðir en að leigja þær út. Þess vegna skiptir máli, held ég, fyrst og fremst að koma því af stað. Þar bind ég miklar vonir við rammasamkomulag við sveitarfélögin, þessa framtíðarsýn, þessa húsnæðisstefnu, sem við erum að setja í fyrsta skiptið og munum fjalla um í vetur, og þann þunga sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir leggja á húsnæðismálin af því þau eru auðvitað svo stór þáttur í öryggi fólks. Þetta er þak yfir höfuðið. Þetta er staðurinn þar sem fjölskyldan á sér friðarstað en þetta er líka efnahagslegt mál. Það ójafnvægi sem við höfum horft upp á að hefur verið að grassera á síðustu árum og áratugum hefur ævinlega neikvæð áhrif á efnahag þjóðarinnar. Þetta er þess vegna gríðarlega mikilvægt. Þó að þetta mál virðist vera lítið þá er það gríðarlega mikilvægt og ég hlakka til góðs samstarfs við nefndina.