Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[12:42]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú hygg ég að ég hafi rétt fyrir mér þegar ég segi að ein forsenda þess að fólk fái húsaleigubætur sé að það hafi þinglýst leigusamningum. Það er hægt að horfa til þess að gera öllum kleift að þinglýsa leigusamningum. Það getur hvort sem er leigusali eða leigjandi gert. Það eiga menn auðvitað að gera þegar um mikilvæga samninga er að ræða, að þinglýsa þeim. Þinglýsing er ein af stoðum undir eignarréttinum og það er mikilvægt að við höldum því til haga.

Ég verð bara að segja hér: Ef menn ætla að samþykkja þetta frumvarp á grundvelli þess og í þeirri góðu trú að verið sé að bæta réttarstöðu leigjenda þá held ég því fram að það sé rangt. Ég hygg að það megi færa rök fyrir því að hún muni frekar verða verri en staðan er núna og ég rakti það hvaða afleiðingar þetta getur haft á markaðinn. Það kann vel að vera að það eigi að lögbinda réttindi leigjenda, t.d. varðandi það að þinglýsa samningum, rétt leigjenda til að skrásetja samning í opinberan gagnagrunn. Ég geri enga athugasemd við það að einstaklingur taki ákvörðun um að þinglýsa eða skrá samninga hjá Húsnæðisstofnun ef hann tekur sjálfur ákvörðun án þess að löggjafinn eða hið opinbera séu með einhverjum hætti að beita hann þvingunum til að gera það. Við getum rætt það og ég hygg að það hljóti að vera eitt af því sem hv. velferðarnefnd tekur fyrir og það vill svo til að ég sit þar. Ég mun auðvitað hafa mínar skoðanir þegar velferðarnefnd tekur málið til umfjöllunar, þ.e. í samræmi við þær skoðanir sem ég hef sett fram hér.