Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

farþegaflutningar og farmflutningar á landi.

279. mál
[12:57]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017. Frumvarpinu er annars vegar ætlað að veita lagastoð til innleiðingar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1055/2020 og hins vegar ætlað að einfalda fyrirkomulag leyfisveitinga samkvæmt núgildandi lögum. Frumvarpið skiptist í fimm greinar, auk gildistökuákvæðis og ákvæðis til bráðabirgða.

Lagðar eru til breytingar á gildissviðsákvæði laganna svo að lagastoð til innleiðingar framangreindrar Evrópureglugerðar sé tryggð. Gildissvið áðurnefndra laga, nr. 28/2017, er í dag bundið við flutninga á landi í atvinnuskyni með vélknúnum ökutækjum eða samtengdum ökutækjum þar sem leyfð heildarþyngd fer yfir 3,5 tonn og leyfilegur hámarkshraði ökutækja nær 45 km á klst. eða meira að því er varðar farmflutninga. Með áðurnefndri reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1055/2020 var gildissvið reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1071/2009 og 1072/2009, sem innleiddar eru með lögum nr. 28/2017, útvíkkað svo þær taka nú til farmflutninga á milli ríkja með ökutækjum þar sem leyfð heildarþyngd fer yfir tvö og hálft tonn.

Lagðar eru til breytingar á ákvæðum laganna er snúa að leyfisveitingum. Í dag gera lögin ráð fyrir þrenns konar leyfum til farþegaflutninga. Þannig voru gefin út almenn rekstrarleyfi til farþegaflutninga í atvinnuskyni með bifreiðum sem skráðar eru fyrir níu farþega eða fleiri, leyfi til farþegaflutninga með sérútbúnum bifreiðum sem rúma færri farþega en níu og loks ferðaþjónustuleyfi til farþegaflutninga með bifreiðum sem rúma færri farþega en níu. Handhafar leyfis til farþegaflutninga með sérútbúnum bifreiðum skulu einnig hafa almennt rekstrarleyfi. Handhafar ferðaþjónustuleyfa skulu einnig hafa almennt rekstrarleyfi, auk rekstrarleyfis frá Ferðamálastofu sem annaðhvort ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa.

Með frumvarpi þessu er lagt til að Samgöngustofa gefi aðeins út eitt og sama leyfið til farþegaflutninga eða farmflutninga en leyfið verði skilyrt og bundið tilteknum flutningum. Þannig verði stjórnsýsla í málaflokknum einfölduð. Ekki er lagt til að gerðar verði breytingar á skilyrðum til útgáfu leyfa.

Loks er lagt til að bætt verði við lögin sérstöku innleiðingarákvæði þar sem fram komi hvaða Evrópugerðir eru innleiddar með lögum nr. 28/2017, en slíkt ákvæði er ekki að finna í lögunum í dag.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.