Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

uppbygging geðdeilda.

98. mál
[13:14]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa tillögu sem mér finnst afar góð og er markmið tillögunnar jákvætt. Áður en ég kem inn á það sem ég ætlaði að spyrja út í vil ég segja að það er sorglegt, eins og komið hefur fram hjá hv. þingmönnum, að heyra um þá skömm eða tabú sem hefur um árabil ríkt í kringum þá sem glíma við þessa sjúkdóma. Maður veltir fyrir sér hvers vegna. Aldrei myndum við segja einhverjum sem væri með öndunarfærasjúkdóm: Harkaðu bara af þér, hlauptu hraðar. Það sama á að gilda um þá sem glíma við andlega eða geðræna erfiðleika eða sjúkdóma af einhverju tagi. Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á heilbrigðismálum og kem þess vegna upp í þetta málefni. Mér finnst þetta ríma og þykir tillagan eiga vel heima við hliðina á þeirri aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum sem unnið er að, að taka þetta samhliða því sem ráðherra mun leggja hér fram, að mér skilst, innan einhvers tíma. En af því að ég kem ekki frá höfuðborginni, þótt Akraneskaupstaður sé í mjög lítilli fjarlægð, þá langaði mig aðeins að nefna vegna þess að hv. þingmaður ræðir mikilvægi húsnæðis og aðstöðu, að innan heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni eru starfrækt svokölluð geðheilbrigðisteymi sem eiga sem taka við þeim sem eru ekki orðnir svo veikir að þeir þurfi á innlögn að halda. Verður eitthvað skoðað hvernig tryggja megi betur starfsemi þeirra innan heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni?