Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

breytingar á aðalnámskrá í grunnskóla.

52. mál
[13:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég sagði ekki að það stæðist ekki. Ég er að segja að staðfæringin á PISA-prófunum er ekki alveg fullkomin af því að við erum ekki með upplýsingar um orðtíðni og þess háttar sem er grundvöllurinn fyrir því að geta valið hvaða texta á að nota til þess að hann sé samanburðarhæfur (Gripið fram í.) við þá sem eru í rannsóknum í öðrum löndum þar sem PISA-könnunin er notuð. Umbrotið [hann sagði formattið en leiðrétti í umbrotið] fyrir PISA-könnunina er mjög fínt og virkar en við þurfum að hafa rannsóknir þar á bak við til þess að geta valið verkefni við hæfi. Það er þar sem vantar. Þess vegna, þegar við veljum ekki verkefni við hæfi, eru niðurstöðurnar að sjálfsögðu skekktar miðað við aðra sem fá verkefni við hæfi.

Varðandi hraðlestrardótið: Það er ekki verið að mæla í alvörunni í raun hversu hratt börn lesa, það er verið að mæla það að ef börn kunna að lesa þá lesa þau hratt; tvennt mjög ólíkt. Það er mjög gott að nota hraðlestrarpróf til þess að mæla nákvæmlega hvort börn séu að skanna meira af texta en bara bókstafi. Þetta er bara aðferðafræði sem fólk tengir oft — eins og t.d. samræmdu prófin. Okkar kynslóð tengir þau rosalega mikið við það að háar einkunnir þar hjálpi okkur inn í framhaldsskóla og séu alveg lykilatriði en það er búið, það er farið. Við erum í allt öðru umhverfi núna. Við erum ekki að gera hlutina eins og við gerðum. Aðalnámskráin á að byggja undir faglegt mat á kennsluaðferðum. Við eigum ekki sem þing að segja: Þið verðið að nota þetta hér til að kenna krökkunum, heldur eigið þið aðalnámskrá sem er í gildi núna og segir þá nákvæmlega að það eigi að velja þær aðferðir sem eru með vísindalegan grunn á bak við sig, ekki t.d. aðferðina sem var hönnuð á Akureyri. Hún reyndist vera algjört drasl miðað við þær sem voru þá í notkun. Aðalnámskrá, eins og er, býður upp á þetta, (Forseti hringir.) ef það eru fagleg rök fyrir því. þá á að nota þær aðferðir. Það þarf ekki að breyta aðalnámskrá til þess að það gerist.