Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

niðurfelling námslána.

155. mál
[14:19]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa tillögu. Ég ætla að játa það hér og nú að ég hef ekki lúslesið hana en hlustaði á framsöguræðuna og kem hérna upp af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi finnst mér allt of lítil umræða fara fram í þessum sal um menntamál, háskólamenntun og ekki síst um námslánaumgjörðina af því að þetta er svo mikill lykill að því að laða fólk til náms og getur líka verið mjög markvisst verkfæri í því að laða fólk til ákveðinna starfa eða halda fólki í ákveðnum störfum að loknu námi í ákveðnum greinum. Ég er með heilbrigðisstéttirnar í huga í því sambandi og hef tekið eftir því að í lögum um Menntasjóð, 27. gr. nánar tiltekið, er heimild. Þetta er sértæk heimild af öðrum toga en sú sem hv. þingmaður er að mæla fyrir hér. Þetta er sérstök ívilnun þar sem segir að ráðherra sé heimilt með auglýsingu að ákveða sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna greina. Þetta væri mikilvægt verkfæri í t.d. í þeirri stöðu sem nú er uppi hjá hjúkrunarfræðingum, þar sem við vitum að stórt hlutfall fólks er farið úr stéttinni fimm árum eftir að það hefur störf. Hérna er kominn fram hvati en eins og svo oft eru stjórnvöld ekki að beita þessari heimild. Það er ekki verið að auglýsa og ekkert fjármagn er sett í að virkja þessa lagagrein. Þannig að mig langaði til að koma upp til að vekja athygli á þessari lagagrein og ég er ekki að segja að þær kallist eða rekist á heldur einfaldlega að flagga því að stjórnvöld eiga líka að muna að beita þeim verkfærum sem þau hafa.