Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

niðurfelling námslána.

155. mál
[14:23]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum þessa hvata, bæði hvata í þá veruna sem þingmaðurinn er að mæla fyrir og að það sé til staðar einhver svona almenn heimild. En mér hefur fundist áhugavert, því mér finnst þetta svo borðleggjandi tækifæri fyrir heilbrigðisráðherra, t.d. núna í aðdraganda kjarasamninga, að ríkisstjórnin eða stjórnvöld beiti sér fyrir einhverjum svona hvötum sem ættu ekki að þurfa að hafa bein áhrif inn í kjarasamningsgerðina t.d. með því að lýsa því yfir að einn hluti af því að bæta kjör kvennastétta gæti verið eitthvað í þessa átt. Lagaheimildin er til staðar. Það liggur fyrir í lögum um Menntasjóð, 27. gr., og gæti ekki verið skýrara. Það gæti ekki verið skýrara að skortur er á hjúkrunarfræðingum og að vinnuumhverfið hrekur fólk úr starfi sem það hefur ástríðu fyrir að sinna. Það sem vantar er kannski bara pólitísk yfirlýsing frá heilbrigðisráðherra eða ráðherra menntamála, jafnvel fjármálaráðherra, og síðan þetta sem vill að vísu gleymast: Að gera ráð fyrir þessu í fjárlögum.