153. löggjafarþing — 17. fundur,  17. okt. 2022.

málefni fátækra.

[15:17]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hef ekki verið í stjórn Öryrkjabandalagsins eða Þroskahjálpar en ég þekki fólk sem á erfitt með að ná endum saman. Ég þekki fátækt fólk, sum þeirra eru öryrkjar. Ég veit alveg hvernig staðan er þar, að sjá ekki alveg fram úr því hvernig maður eigi að láta enda ná saman. En ég þekki líka fólk sem hefur upplifað raunverulegar breytingar á lífskjörum, t.d. þegar það hefur komist inn í almenna íbúðakerfið. Ég þekki fólk sem á skyndilega afgang vegna þess að það er farið að borga sanngjarna leigu í gegnum félagslegt húsnæði sem virkar. Ég þekki fólk sem hefur haft samband við mig og sagt: Þær breytingar sem hefur verið ráðist í þegar kemur að heilbrigðiskostnaði muna öllu þannig að nú get ég í raun og sann sótt mér heilbrigðisþjónustu. Það voru svo sannarlega stigin stór skref í því á síðasta kjörtímabili. Eru fleiri skref sem þarf að stíga? Já, en það er ekki hægt að halda því fram að ekkert hafi verið gert.