Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 18. fundur,  17. okt. 2022.

fjarnám fólks í sérstökum aðstæðum.

254. mál
[17:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir að koma hér og ræða við mig um fjarnám. Við þekkjum öll hversu mikið almennri færni í notkun stafrænnar miðlunar, fjarvinnu og fjarkennslu hefur fleygt fram á síðustu árum. Tæknin hefur þróast á þann veg að enginn ætti að þurfa að sitja eftir vegna sérstakra aðstæðna og missa af möguleikum til náms. Að sjálfsögðu fer þó eftir eðli námsgreina hvað mögulegt er að læra í fjarnámi en möguleikarnir eru miklir.

Í haust lagði ég ásamt fleirum, enn og aftur fram tillögu til þingsályktunar um fjarnám á háskólastigi þar sem lagt er til að skipaður verði starfshópur til að vinna aðgerðaáætlun um frekari eflingu fjarnáms með áherslu á þróun stafrænna kennsluhátta. Í tillögunni er lögð áhersla á að íslenskir háskólar verði í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta, bæði til að auka aðgengi að námi og gæði alls náms, hvort sem nemendur stunda námið innan veggja háskólanna eða í fjarnámi. Með öðrum orðum, að tæknin verði alltaf notuð til að tryggja að nám sé gott og aðgengilegt. Þá er lögð áhersla á að hægt sé að stunda allt nám sem fjarnám nema það sé eitthvað sem sérstaklega mælir á móti því, svo sem verkleg þjálfun. Á engan hátt er þó verið að draga úr mikilvægi staðnáms, en þrátt fyrir framfarir í tækni og tillögur um aukið fjarnám er enn þá langt í land að allt nám verði í boði stafrænt. Það skapar ýmsar hindranir fyrir fólk sem á þess ekki kost að flytjast búferlum til náms, á erfitt með ferðalög eða er bundið af öðrum skyldum.

Ef ég skil rétt þá þekkist það í nágrannalöndum okkar að réttur tiltekinna hópa til aukins sveigjanleika í háskólanámi er skilgreindur sérstaklega. Þá er vel þekkt að íþróttamenn fara til náms við háskóla erlendis þar sem þeir gera samninga um ástundun íþrótta og fá samhliða sveigjanleika í námi og jafnvel aukastuðning. Í háskólum hér á landi þarf hins vegar oft að fara miklar krókaleiðir til að fá rétt til próftöku ef nemandi missir af prófi vegna þátttöku í landsliðsverkefnum eða leikjum í deildakeppnum í íþróttum. Mér er ljóst að sjálfstæði háskóla um útfærslu náms er mikið en spyr samt sem áður hvort hæstv. ráðherra telji gerlegt að skilgreina tiltekna hópa háskólanema sem ættu rétt á fjarnámi eða auknum sveigjanleika á námsleiðum sem ekki bjóðast í fjarnámi. Sveigjanleiki gæti verið t.d. vegna búsetu á landsbyggðinni eða vegna fjölskylduaðstæðna. Það hafa verið nefnd dæmi eins og umönnunarskyldur við ung börn eða umönnun vegna langveikra barna, eða þá eitthvað ólíkt eins og ástunduns afreksíþrótta. Rúmast vinna af þessu tagi innan ramma laga um háskóla að mati hæstv. ráðherra?