Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 18. fundur,  17. okt. 2022.

fjarnám fólks í sérstökum aðstæðum.

254. mál
[17:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég tek undir að sameiginleg umsóknagátt er mjög mikilvæg og að hún geti veitt mun betri upplýsingar um allt nám til væntanlegra háskólanema, ekki síst vegna möguleikans á að bera saman hvað er í boði í fjarnámi. Eins finnst mér mjög jákvætt að heyra af sameiginlegri stefnumótun við hvernig hægt er að nýta rafræna og stafræna tækni í námsframboði.

Í vetur hef ég glaðst yfir að sjá háskólanema aftur fá tækifæri til að mæta í skólann, ekki síst fólk úr árganginum sem nú er á sínu þriðja ári í háskólanámi og er í fyrsta sinn að fá tækifæri til daglegrar umgengni við samnemendur. En á sama tíma hefur mér þótt erfitt að heyra af og heyra í fólki sem er í rauninni þrengt að vegna ástæðna eins og að þau eigi um langan veg að fara eða geti ekki mætt á tiltekinn stað á tilteknum tíma. En ég dáist líka að útsjónarsemi fólks sem ég hef heyrt af og greip tækifærið meðan allt nám var í fjarnámi og valdi hreinlega út námskeið sem það vissi að yrðu ekki í boði að faraldrinum loknum. Það er svolítið skemmtilegt að heyra svoleiðis.

Það er svo sannarlega mikið hagsmunamál fyrir einstaklinga og samfélögin á landsbyggðinni að það sé hægt að stunda nám án búferlaflutninga og jafnframt að afla þeirrar þekkingar sem samfélög þurfa á að halda, í félagsráðgjöf eða masters-námi í sálfræði og talmeinafræði sem mikið er kallað eftir, svo dæmi séu tekin. Það er undarleg staða þegar nemendur hafa jafnvel fengið þær upplýsingar að ekki sé hægt að stunda fjarnám í tiltekinni námsgrein, fá svo ekki að mæta í skólann í ákveðinn tíma en geta ekki lokið náminu í fjarnámi. (Forseti hringir.) Er hæstv. ráðherra kunnugt um sveigjanleika til þeirra sem eru að ljúka námi?