Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

Störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar að benda á að í forsíðufrétt Morgunblaðsins í gær, mánudag, var vakin athygli á því að skuldir ríkissjóðs hefðu hækkað um 130 milljarða það sem af er árinu. Mig langar til að nefna þetta hér í samhengi við orð seðlabankastjóra á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun þar sem fram kom sú afstaða Seðlabankans að því meira sem ríkisstjórnin og Alþingi legðu af mörkum hvað aðhald og stýringu ríkisfjármála varðar, því minna þyrfti Seðlabankinn að beita sér hvað þau fáu vopn varðar sem hann hefur til að vinna með gegn verðbólgunni.

Ég nefni þetta hér vegna þess að nú förum við í gegnum þau fjárlög sem fjármálaráðherra lagði fram sem 1. þingmál þessa hausts, eins og lög gera ráð fyrir, þar sem útgjaldaþenslan er alveg gríðarleg. Ríkisstjórnin sér fyrir sér að ná ekki jafnvægi í ríkisfjármálunum fyrr en 2026–2027 en seðlabankastjóri sagði á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun að Seðlabankinn hefði viljað sjá þessu jafnvægi náð strax á næsta ári. Við megum ekki gleyma því að þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við völdum hér 2013 þá var staðan mjög snúin efnahagslega en stjórnarflokkarnir tveir á þeim tíma einhentu sér í það verk að fyrstu fjárlög þeirrar stjórnar voru hallalaus. Ég held að sú stjórn sem nú er við völd verði að stíga skref til baka, víkja frá þessum gegndarlausa útgjaldaauka og útgjaldaþenslu hins opinbera því að á endanum er þetta auðvitað allt saman peningar sem teknir eru af vinnandi fólki og fyrirtækjum landsins og er næstum því öruggt að hverri krónu er betur varið í vasa þeirra sem vinna sér inn fyrir fjármununum en í ríkissjóði, því miður.