Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

Störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Í gær fóru fram sérstakar umræður um málefni fólks á flótta og það er hægt að halda því fram með réttu að þar hafi tekist á tvö andstæð sjónarmið. Þar lágu línur ekki eftir stjórn og stjórnarandstöðu, enda hefur nú komið í ljós að bæði hæstv. forsætisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra hafa lýst andstæðri skoðun við hæstv. dómsmálaráðherra sem vill þrengja að fólki á flótta með þeim rökum að verið sé að misnota kerfið og glæpamenn séu að lauma sér inn í landið á fölskum forsendum. Því þurfum við að breyta kerfinu og loka hópinn inni til að geta haldið utan um þetta allt saman. Auðvitað eigum við ekki að láta glæpamenn misnota flóttamannakerfi sem byggist upp á mannúð og virðingu fyrir fólki en við megum heldur ekki láta það verða til þess að þrengja að fólki sem vissulega er í mikilli neyð. Það gerir það enginn að gamni sínu að ferðast heimshluta á milli upp á von og óvon og láta jafnvel lífið á leiðinni.

Ég vil hins vegar benda hæstv. dómsmálaráðherra á leiðir sem hann á að nýta til þess að vinna gegn glæpum, bæði innlendum og innfluttum, en það er að styrkja löggæslu þessa lands. Ríkislögreglustjóri hefur upplýst um að sú breyting sem varð með styttingu vinnuvikunnar hafi kostað sem nemur 70 stöðugildum innan lögreglunnar og það hefur ekki fengist bætt. Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er gerð aðhaldskrafa upp á 2% á löggæsluna og getur það ekki þýtt neitt annað en uppsagnir. Lögreglumönnum hefur ekkert fjölgað þrátt fyrir mikla fólksfjölgun í landinu og mikla aukningu ferðamanna. Ég held að hæstv. dómsmálaráðherra ætti að einhenda sér í það verk í stað þess að eyða tíma í að vinna gegn fólki í neyð.