Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

Störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í gær, 17. október, var alþjóðadagur helgaður útrýmingu fátæktar. Á þeim degi gafst ríkisstjórninni tækifæri til að viðurkenna fátækt, hvað þá sárafátækt, og gera eitthvað í málinu. Svar hæstv. forsætisráðherra var að þau væru að gera alveg helling og var hún eiginlega móðguð að ég skyldi segja að þau væru ekki gera neitt. Það er kannski rétt. En hefur nóg verið gert? Nei. Hefur fækkað í hópi fátækra? Nei. Hafa fátækir fengið kjarabætur umfram verðbólgu? Nei. Hafa frítekjumörk fátækra hækkað? Nei.

Sem sagt, enginn úr ríkisstjórninni kom upp í ræðustól í gær til að boða átak um hvernig ætti að útrýma fátækt. Fatlað fólk er í mestri hættu á fátækt. Nýjasta dæmið er að 200 einstaklingar frá allt að 30 ára aldri eru vistaðir á hjúkrunarheimilum. Áður fyrr voru fatlaðir vistaðir í útihúsum. Nú eru þeir vistaðir á hjúkrunarheimilum sem vilja ekki einu sinni hafa þá, segja að hjúkrunarheimilin geti ekki hugsað um þetta fólk þannig að verið er að úthýsa þeim frá hjúkrunarheimilum, 200 einstaklingum. Hvað gerir ríkið og sveitarfélögin? Jú, þau segja: Þetta er svo mikill kostnaður. Það kostar svo mikið að hjálpa þessu fólki. Þegar málið varðar fatlað eða fátækt fólk þá er talað um kostnað en ekkert er talað um kostnað í tengslum við þá sem eru auðugir.

Í umræðunni í gær varð mér fótaskortur á tungunni þegar ég sagðist hafa verið í stjórn Þroskahjálpar. Það er rangt. Ég var í stjórn ÖBÍ og Sjálfsbjargar og leiðrétti það hér með.