Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

Störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í gær var alþjóðlegur baráttudagur gegn fátækt. Á Íslandi, einu ríkasta ríki heims, þrífst fátækt. Þúsundir barna búa hér við sárafátækt. Nýjustu tölur eru frá árinu 2018 og sýna að 9% íbúa búa við fátækt eða 31.400 einstaklingar, og að um 20% leigjenda búa við fátækt. Einstæðir foreldrar á örorkubótum eru meðal þeirra verst settu. Það má leiða að því góðar líkur að ástandið hafi ekki batnað síðastliðin fjögur ár. Þetta kom fram í morgunþætti Rásar 1 í viðtali við Geirdísi Hönnu Kristjánsdóttur frá grasrótarsamtökum Pepp, sem vinna gegn fátækt og félagslegri einangrun, og Ástu Þórdísi Skjalddal, sem er varaformaður kjarahóps Öryrkjabandalagsins. Það að lifa í stöðugum afkomuótta veldur kvíða, sálrænum erfiðleikum og félagslegri einangrun. Fátækt fólk verður fyrir fordómum vegna þeirrar stöðu sem það er í. Börn sem alast upp við fátækt fá ekki sömu tækifæri og önnur börn. Mörg þeirra hafa ekki stuðning til að fara í framhaldsskóla og hafa ekkert til að hlakka til. Mörg þeirra búa við skaðleg hegðunarmynstur sem fylgja þeim út lífið, hegðunarmynstur sem þau þurfa aðstoð við að rjúfa. Öryrkjar og aldraðir með litlar tekjur eiga allt sitt undir stjórnvöldum, að greiðslurnar sem þau fá frá hinu opinbera dugi fyrir mannsæmandi lífi. Svo er ekki nú um stundir vegna rangra pólitískra ákvarðana, vegna þess að stjórnarþingmenn hafa ítrekað fellt tillögur okkar jafnaðarmanna um hærri lífeyrisgreiðslur, hærri greiðslur til barnafjölskyldna, betri húsnæðisbætur og hafa ekki beitt sér fyrir því að á vinnumarkaði verði til fleiri hlutastörf fyrir fólk með skerta starfsgetu. Það er ekki nóg að tala og tala um farsæld barna og snemmtæka íhlutun og allt það, það þarf að grípa til aðgerða, það þarf að fjármagna þær og það þarf að útrýma fátækt á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)