Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

Störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Hver er kveikjan að nýjum tækifæri til sóknar sjávarútvegsins? Að mínu mati leikur Hafrannsóknastofnun lykilhlutverki í nýtingu þeirra tækifæra sem við getum byggt vöxt sjávarútvegsins á í framtíðinni. Til þess þarf starfsemi Hafró að vera fjárhagslega tryggð. Samdráttur í fjármálum Hafró er samdráttur í vöktun fiskstofna sem leiðir til minni veiða.

Virðulegur forseti. Það er hættuleg þróun. Í ljósi varúðarnálgunar vegna minnkandi vöktunar á ástandi nytjastofna er farið varlegar í nýtingu en ella væri. Vöktun fiskstofna er lykill að hámarksnýtingu og hámarkstekjum á hverju fiskveiðiári. Ég vek athygli á greinargerð um stöðu haf- og fiskrannsókna og leiðir til að efla þær eftir Jóhann Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóra Hafró, sem skrifaði skýrslu fyrir matvælaráðherra og, með leyfi forseta, ég vitna í:

„Í vaxandi mæli sinnir Hafrannsóknastofnun miðlun upplýsinga til kaupenda íslenskra sjávarafurða varðandi ástand fiskistofna og stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum. Þar er annars vegar spurt um stöðu fiskistofnanna, hins vegar hvort haldið sé úti nauðsynlegri vöktun og rannsóknum og að tryggt sé að ekki sé gengið á stofnana og lífríki hafsins. Að þrengt sé svo að grunnstarfsemi Hafrannsóknastofnunar eins og nú er gert er hættuspil. Hér er orðspor Íslands og forskot í markaðslegu tilliti vegna ábyrgra fiskveiða í hættu. Þá er vottun afurða, sem háð er því að vel sé haldið á rannsóknum á auðlindinni og stjórn veiða, sett í uppnám.“

Útflutningsverðmæti sjávarafurða eru beintengd getu Hafró til vöktunar fiskstofna. Aukið framlag Alþingis til Hafró mun skila sér í nýjum tækifærum til sóknar og auknum þjóðartekjum.

Virðulegur forseti. Það er mikill áhugi á nýjum auðlindum en því miður skortir á rannsóknir á þeim sem ég nefni hér: Rauðáta, ljósáta, laxasíld, gulldepla, þang og þari, skeljungar og kuðungar. Ný tækifæri til t.d. fjarvöktunar eru til og geta leitt til sparnaðar til lengri tíma en fjárfestingarkostnaðurinn er mikill.