Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

almenn hegningarlög.

45. mál
[14:51]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, fyrir meðflutninginn og almennt fyrir þann stuðning sem hann hefur veitt hinsegin samfélaginu, verið óþreytandi í því.

Aðeins af því að hv. þingmaður talar um bakslagið í stóru myndinni — þetta er eiginlega ekki spurning heldur vangaveltur. Við lifum þannig tíma að það er óróleiki, það er uppþot og það er sótt að frjálsræði og frelsi fólks og okkar lýðræðislegu gildum mjög víða. Ég tengi þetta allt saman. Bakslagið í málefnum hinsegin fólks kemur ekki úr neinu tómarúmi, að mínu mati. Það er nátengt sókn að sjálfsákvörðunarrétti kvenna, jafnrétti kvenna, og við getum tengt það við innrás í frjáls lýðræðisríki. Við getum tengt þetta við viðsnúning á túlkunum á gömlum hæstaréttardómum. Við getum tengt þetta við aðför að jafnrétti kynjanna. Þetta tengist allt því sama, að halda fólki í ótta, að búa til sameiginlega óvini, að halda fólki uppteknu við það að berjast gegn þeim o.s.frv.

Það er þess vegna sem ég nefndi í ræðu minni áðan, jafn illa og mér er við að tala um bakslag, vegna þess að við stöndum svo lagalega vel hér, að við verðum að þora að tala um þetta eins og það er og vera ekki svo bláeyg að halda að við séum í fyrsta lagi ein um að kljást við þetta og að þetta skipti litlu máli, þetta sé bara einhver mjög afmarkaður og jaðarsettur hluti samfélagsins. Það er einfaldlega þannig núna að hinsegin fólk stendur í brjóstfylkingunni í ákveðinni baráttu gegn frelsi einstaklingsins og það varðar okkur öll.

Mig langar til að heyra aðeins hugleiðingar, af því að hv. þingmaður fór inn á þessar slóðir í ræðu sinni um þessi mál, hv. þingmanns, hvort (Forseti hringir.) hann sé sammála mér um að um sé að ræða miklu stærra mál en það getur litið út fyrir að vera í augum marga.