Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

almenn hegningarlög.

45. mál
[15:01]
Horfa

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að hefja þessa umræðu. Ég er sjálf gift konu og þetta mál stendur mér nærri. Mér finnst mjög mikilvægt að við fjöllum um samtvinnun í þessu samhengi, samtvinnun einkenna fólks. Við vitum að jaðarsettir hópar eru líklegri til að lenda í meðferðum sem þessum. Við þekkjum dæmi um að fötluðum einstaklingum, sem eru t.d. með þroskahömlun, eða einhverfu hinsegin fólki er ekki trúað þegar það kemur út úr skápnum, reynt er að þröngva því aftur inn í skápinn, bæði af aðstandendum og kerfinu sjálfu, það eru dæmi um það. Það er mikilvægt að við horfum til þessa, horfum til uppruna fólks, horfum til stöðu fólks að öðru leyti. Fæstir eru bara hinsegin fólk, heldur tilheyra mörgum hópum í senn. Það er því mjög mikilvægt að við hugsum um þá hópa og fjöllum um þá og mikilvægt að þessi lög taki utan um alla þessa hópa, að við getum tryggt að allt hinsegin fólk, sama hvert það er, sé varið fyrir þessum hræðilegu meðferðum. Sjálfsvígstíðni hinsegin fólks er há og sjálfsskaði og sjálfsskaðandi hugsanir ungs hinsegin fólks mælast mun hærri en jafnaldra þeirra.

Við verðum að tryggja að fólk sé varið fyrir þessum hræðilegu meðferðum. Við verðum að tryggja, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á áðan, að við séum búin að byggja brúna. Ef þetta bakslag heldur áfram, ef þróunin sem við sjáum núna heldur áfram, þarf fólk að vera varið. Þó að samfélag okkar sé komið lengra en mörg samfélög í kringum okkur þá vantar svo mikið upp á löggjöfina. Ég þekki það sjálf, ég er enn skráð faðir barnsins míns í kerfinu en það er eitt af því sem þarf að breyta. Það er mikilvægt að við horfum til þess að löggjöfin okkar sé í takti við þá samfélagsvitund sem er þó enn til staðar, þann samfélagsstuðning sem við þó höfum enn þá, að löggjöfin svari því. Við sjáum í löndunum í kringum okkur, þar sem löggjöfin er komin mun lengra, að samfélagið er orðið eftir á. Við búum svo vel að samfélagið hefur stigið ótrúlega róttæk skref í vitundarvakningu á undanförnum árum og jafnvel áratugum og löggjöfin þarf að fylgja því eftir, að við séum búin að byggja brúna.