Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

áhrif heimilisofbeldis við úrskurð um umgengni.

329. mál
[15:39]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Alþingi greiðir nú atkvæði um þessa skýrslubeiðni mína öðru sinni svo að ég geri fastlega ráð fyrir því að vinna sé þegar hafin í dómsmálaráðuneytinu og að skýrslunni verði skilað einhvern tímann á næsta ári. Við skulum tala hreint út um efni þessarar skýrslu. Það liggja fyrir dæmi úr íslenskum samtíma um að stjórnvöld þvingi barn til að umgangast foreldri sem hefur verið dæmt fyrir kynferðisofbeldi gegn viðkomandi barni eða gegn systkini þess. Það liggja fyrir fleiri en eitt og fleiri en tvö dæmi um þetta úr íslenskum samtíma. Þetta kemur okkur við hérna á Alþingi. Það bendir sitthvað til að lagaframkvæmd í þessum málum sé of foreldramiðuð og geti bitnað á réttindum barnsins. Þess vegna er þessi skýrslubeiðni lögð fram. Við þurfum að fá fram greinargóðar upplýsingar um það hvernig lagaframkvæmdinni hefur verið háttað, sérstaklega síðan lögum var breytt árið 2012. (Forseti hringir.) Þetta munum við fá betri yfirsýn yfir þegar skýrslan berst Alþingi. Ég þakka þingmönnum fyrir stuðninginn við málið.