Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[16:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar við berum okkur saman við önnur lönd verður m.a. að horfa til þess hvernig gjaldmiðlamálum er háttað. Í Hollandi eru menn að vinna með evruna sem hefur áhrif í því samhengi sem við höfum verið að tala um hér, sem er gjaldmiðilsáhættan.

Varðandi hitt atriðið tek ég mjög undir með hv. þingmanni, að fyrirferð lífeyrissjóðanna er gríðarlega mikil. Á þeim tíma sem ég var í forsætisráðuneytinu fyrir nokkrum árum lét ég einmitt vinna skýrslu um áhættu sem varðar umfang lífeyrissjóðanna í íslensku hagkerfi. Sú skýrsla kom að lokum út, ef ég man rétt, á árinu 2018. Þar var hvatt til þess að við myndum endurmeta stöðuna að nokkrum árum liðnum, gott ef það átti ekki einmitt að skoða þetta aftur árið 2022, en eins og sakir stóðu á þeim tíma sem skýrslan var skrifuð þá þótti ekki ástæða til að hafa of miklar áhyggjur af þessu. En að mínu áliti hefur þetta breyst. Ávöxtun lífeyrissjóðanna hefur verið mjög mikil, þeir hafa stækkað verulega og við höfum séð þá þróun t.d. (Forseti hringir.) að lífeyrissjóðirnir áttu fyrir fjármálahrun innan við 20% af heildareignum (Forseti hringir.) í Kauphöllinni en eiga núna yfir 50%.