Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[16:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi hlutföllin og inneignirnar þá eru þetta tveir ólíkir hlutir sem fjallað er um í frumvarpinu. Annars vegar að menn hafi lausar inneignir til að mæta skuldbindingum næstu ára en þar er í raun og veru verið að tryggja að menn séu mjög vel varðir gagnvart skammtímaskuldbindingum. Hins vegar er fjallað um hlutfallið á milli innlendra og erlendra eigna. Ég held að ég sé að svara spurningunni með því að skýra þetta svona.

Já, það er bara mjög gott sjónarmið að það sé áhættudreifingaratriði að hleypa lífeyrissjóðunum úr landi. Ég er algjörlega sammála því. Ég minnist þess að hér var prófessor við skóla í Reykjavík fyrir ekki svo mörgum árum, gestaprófessor frá Boston sem var þar að kenna í MBA-námi. Hann sagði eftir fjármálahrunið að sér þætti mjög skrýtið að Íslendingar hefðu bundið alla peningana sína hér innan lands. Hann sagðist ekki myndu hafa bundið allan sinn sparnað í Boston þótt þar byggju álíka margir og á Íslandi.