Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[16:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér enn að ræða frumvarp til laga um lífeyrissjóði, um gjaldmiðlaáhættu og upplýsingagjöf til sjóðfélaga. Eins og hefur komið fram vel og vendilega er gífurlegur auður í lífeyrissjóðunum, hann er kominn yfir 6.000 milljarða. Áttum okkur á því að ef við tökum um 37% skatt af því þá erum við að tala um 2.000 milljarða sem er gífurleg upphæð í skattheimtu sem liggur þarna inni. Ef við tækjum okkur til núna og myndum skattleggja inngreiðslurnar bara eins og þær eru í dag og segðum: Nú ætlum við að skatta inngreiðslurnar frá og með deginum í dag og nýta þær, þá erum við að tala um nálægt 100 milljörðum kr. í skattgreiðslur. Hvað segir það okkur á sama tíma og við erum með heilbrigðiskerfi sem er að líða gjörsamlega undir lok? Læknafélagið sendir út tilkynningar, á bráðavaktinni er allt í óefni. Og hvað segja þessir aðilar að sé aðalþröskuldurinn í þeirri stöðu sem er í dag? Jú, fjármagnsskortur. Það vantar fé inn í kerfið. En þarna eru þeir, við liggjum á gífurlegum fjármunum.

Horfum á þetta frá öðru sjónarmiði: Á hverjum er þetta að bitna verst? Við skulum taka einstaklinga, eldra fólk sem er á lægstu lífeyrissjóðslaunum í kerfinu. Það fær einhverja hungurlús frá Tryggingastofnun en það er auðvitað allt skert, fyrst skattað og svo skert um 45%. En síðan er þetta fólk að borga skatta í dag. Við gætum á augabragði, með því að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóð, nýtt þessa fjármuni fyrir þetta fólk og tekið af því þessa skattbyrði. Það myndi strax bæta hag þeirra verst settu um 50.000–60.000 kr. á mánuði. Spyrjið þið fólk þarna úti, gamla fólkið og eldri borgara sem eru að láta okkur heyra það. Þeir sem eru verst settir lifa við fátækt. Það myndi skipta þetta fólk svo miklu máli ef það fengi bara þessar 50.000–60.000 kr., ég tala nú ekki um, eins og Flokkur fólksins hefur lagt fram frumvarp um, 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Fjármunirnir sem við náum þarna inn sem skatttekjum myndu duga vel til að halda því þannig að flestallir gætu fengið 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Við erum ekkert að finna upp hjólið þar, eins og ég hef margoft sagt og ætla að segja einu sinni enn, því að 1988 þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp þá var ellilífeyrir skattlaus og þá var meira að segja persónuafsláttur inni í til að setja upp í lífeyrissjóð. Þetta sýnir að sett hefur verið gífurleg skattheimta inn í kerfið.

Ég set bara spurningarmerki við þetta. Lærum við ekkert? Við lentum í bankahruni, við lentum í gífurlegu fjármálahruni og þá kom skýrt fram hvað tapaðist af skattpeningum og hvað tapaðist úr lífeyrissjóðum. Ætlum við að stinga hausnum í sandinn og segja: Nei, við dælum bara peningunum áfram í þetta, leyfum lífeyrissjóðunum að fara með þessa peninga og gambla með þá á markaði, það er allt í lagi, það skeður ekki neitt? Við þurfum ekki að horfa nema til Úkraínu til þess að vita að það er draumur í dós að halda að kerfið virki algjörlega. Það þarf ekki nema eitthvert smotterí aftur til að láta þetta kerfi hrynja. Við vitum líka að í kerfinu eru gildrur sem hefur verið bent á, eins og kom fram hjá ráðherra sjálfum þegar hann benti á að fyrir hrun voru um 20% af því sem var í Kauphöllinni eignir lífeyrissjóðanna. En nú eru þær komnar í 50%. Við erum að stefna eiginlega í það að við verðum í mjög slæmum málum ef eitthvað skeður. En við getum lágmarkað skaðann með því að nýta þessa peninga. Við horfum líka á það að stór hluti af þessum fjármunum er það sem kynslóðir núna eru að safna í lífeyrissjóði og ég er sannfærður um að ef þeir sem eru að safna núna í lífeyrissjóði sæju það og vissu af því að inngreiðslan í lífeyrissjóði yrði skattlögð og komið þannig fyrir að það yrði notað til þess að útrýma fátækt, koma heilbrigðiskerfinu í lag, við værum ekki með fátækt fólk og börn á biðlistum eftir aðgerðum, væru þeir sammála þessu. Við værum ekki að skatta fátækt eða sárafátækt, við værum virkilega að taka til í samfélaginu og nýttum þessa peninga í það, eyrnamerktum þessa peninga í það. Þá værum við í mun betri málum. Ég er eiginlega sannfærður um það.

Þetta sýnir auðvitað líka hversu gífurleg áhættan er, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á. Þessi ávöxtunarkrafa, 3,5%, setur svakalegan þrýsting á kerfið og gerir hlutina eiginlega líka að mörgu leyti verri vegna þess að það gerir meiri kröfu um áhættu til að ná ávöxtuninni. Það getur kannski þar af leiðandi valdið því, ég veit ekki, með aukinni ávöxtunarkröfu og með auknum gróða í kerfinu, að það verði meiri hætta á að eitthvað gefi sig og eitthvað tapist. Við værum svolítið græn ef við ímynduðum okkur það, ef við færum með alla þessa fjármuni út úr landinu, líka þá sem eru í landinu, og við tryðum því bara statt og stöðugt að við fengjum þessa fjármuni til baka, við fengjum til baka 6.000 milljarða. Það er ekki neitt sem tryggir það, ekki nokkur skapaður hlutur. Við höfum ekki hugmynd um það vegna þess að við vitum ekkert hvenær við ætlum að leysa þetta út. Við vitum ekkert hver staðan verður þá. Og síðan er það auðvitað, eins og hefur komið fram hérna, gjaldeyrisáhættan. Hún er til staðar.

Svo er annað í þessu sem sýnir líka hvernig við virðumst vera komin á stað eins og maður fékk tilfinningu um fyrir hrunið, þegar það stendur hérna í frumvarpinu:

„Í öðru lagi að breytt verði ákvæði um að afleiðusamningar (og aðrir fjármálagerningar) skuli vera innan við 10% heildareigna …“

Í bankahruninu kom þetta einmitt fram, um afleiðusamninga og stöðu gegn genginu og gjaldmiðlaáhættu og allt saman. Einhvern veginn virðumst við vera að sigla inn í svipað ástand sem gerir okkur að mörgu leyti berskjölduð ef annað hrun kemur og ég vona bara heitt og innilega að ég hafi rangt fyrir mér. En ég er sannfærður um það að ég hef rétt fyrir mér og að við eigum að nýta núna tækifærið og skattleggja þetta og fá skattpeningana til að nýta þá í dag vegna þess, eins og ég segi, að ef við nýtum þá í dag þá erum við að nýta þá að stærstum hluta fyrir það fólk sem hefur greitt í kerfið. Við erum þá alla vega að sjá til þess að peningarnir hafi nýst 100% og séu að gera góða hluti, en við erum ekki einhvers staðar að gambla með þá á markaði með þeirri áhættu sem fylgir og við höfum ekki hugmynd um hverju hún skilar í framtíðinni eða hvort hún skilar sér bara yfir höfuð einhvern tímann í framtíðinni.