Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[17:02]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð nú að lýsa því yfir hér að mér þykir þetta vera skrýtin ræða hjá hv. þingmanni. Við erum að tala um lífeyriskerfi sem er í raun og veru búið þannig til að þetta eru tekjur dagsins í dag sem við fáum ekki greiddar fyrr en við erum orðin gömul. Þetta eru sem sagt frestaðar atvinnutekjur sem eru greiddar út eftir að við verðum 65, 67 eða sjötug, eftir atvikum eða hvernig sem því verður háttað.

Hv. þingmaður nefndi að kerfið væri sirka 6.000 milljarðar — þetta eru margföld fjárlög. Ég held að inngreiðslur í lífeyrissjóði séu sirka 400 milljarðar á hverju ári eða alla vega að fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna sé einhver sú upphæð. Skatturinn af þessum 400 milljörðum gæti þá verið 150 milljarðar. Ég velti fyrir mér: Telur þingmaðurinn eðlilegt að rýra lífeyriskerfið sem nemur þeirri tölu, hver sem hún er, gagnvart þeim sem eiga eftir að ávinna sér lífeyrisréttindi á næstu 30–40 árum, skerða möguleika lífeyrissjóðanna til ávöxtunar allan þennan tíma, sem eru áratugir? Það veldur því að lífeyrissjóður þessara einstaklinga verður miklu minni en annars hefði orðið af því að hv. þingmaður ætlar að nýta hann í dag til að þjóna okkur vegna afglapa stjórnmálamanna á þessum tímapunkti. Er ekki nær að afla skatttekna með einhverjum öðrum hætti?