Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[17:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir hans andsvar. Ég virði hans skoðanir en verð að vera algerlega og innilega ósammála honum. Það er hægt að eyrnamerkja þessa peninga. Ég er ekki að fara fram á annað en jafnvel bara það einfalda mál að þessir peningar séu nýttir fyrir þá sem eru að borga í kerfið og eiga þá. Eldri borgari í dag sem er með 300.000 kr. útborgaðar og fær ekki krónu annars staðar, hann fær 50.000–60.000 kr. skatt og á að reyna að lifa af einhverjum 250.000 kalli. Hvað er hann búinn að borga lengi í sjóðinn, 40 ár? Er þetta þakklætið? Af því hann var láglaunamaður, kannski á einhverjum 350.000–400.000 kr. launum, þá fær hann 100.000–150.000 út úr lífeyrissjóðum, 56%. Það er engin ofrausn. Þetta er fólkið sem er að lepja dauðann úr skel og kallar á að það séu gerðar einhverjar breytingar. Ríkisstjórnin gerir það ekki. Þess vegna er ég a.m.k. að reyna að finna fjármuni til þess, fjármuni sem þetta fólk á líka. Og af hverju á að vera að „gambla“ með skattpening þess á markaði? Af hverju þarf lífeyrissjóðurinn allt í einu 100%? Dugir honum ekki 70% af því sem hann er að fá inn? Er þá áhættan ekki minni? Það er ekki eins og það sé verið að taka frá lífeyrissjóðunum í sjálfu sér vegna þess að ef það er skattað inn þá segir það okkur líka að það verði ekki skattað aftur, þá verður að tryggja að það verði ekki tvískattað. Ég er bara að reyna að finna lausn á því að fólkið í dag sem á liggur við ekkert í lífeyrissjóðskerfinu og lifir í fátækt, hreinlega þeir verst settu sem eru í þessu kerfi, eigi þó alla vega möguleika á að lifa með reisn núna í dag.