Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[17:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst þetta áhugaverð tillaga hjá hv. þingmanni en stærðfræðin í henni gengur ekki alveg upp. Ef við lítum þannig á það að lífeyrissjóðakerfið haldist núvirt til framtíðar, sem við vonumst eftir a.m.k., þá er það sama upphæð sem er tekin í skatt fyrir og eftir. Það er engin breyting, það er nákvæmlega sama upphæð sem er tekin fram og til baka. Ef við hins vegar gerum ráð fyrir því að lífeyrissjóðakerfið sé að skila ávöxtun þá er alltaf betra að ávaxta stærri upphæð, það skilar okkur betri lífeyrisréttindum seinna. Ef hins vegar staðan er sú að lífeyrissjóðakerfið nær ekki að ávaxta sig þá erum við bara algerlega í djúpum, óháð því hvort við tökum skattinn fyrir eða eftir. Þá ættum við ekki að vera með svona uppsöfnunarkerfi heldur einmitt gegnumstreymiskerfi sem er stöðugt núvirt. Þannig að áhættan í þessu er sú að ef við tökum skattinn fyrir fram núna þá erum við að rýra í rauninni ávöxtunina seinna á ævinni, fá minni lífeyrisréttindi á þeim tíma. Þá hefur fólk það enn verr en það hefur núna. Þannig að það er ekki lausnin við lífeyrisvandanum eins og hann er í dag, alls ekki. Með því að gera þetta eins og hv. þingmaður leggur til þá erum við bara að gera vandann enn þá verri seinna meir af því að við höfum ekki náð að ávaxta hærri upphæð heldur en við byrjuðum með. Ég átta mig því ekki á því hvernig Flokkur fólksins nær að láta þetta ganga upp, að við séum að fá einhverjar meiri tekjur til þessa hóps núna á annan hátt en að fórna framtíðarkynslóðum.