Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[17:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta breytir samt málinu ekki neitt. Með því að taka skattinn þarna af á undan þá erum við einungis að auka á sama vandamál seinna meir. Það er einfaldlega tilfærsla frá lífeyrisréttindum seinna yfir á lífeyrisréttindi núna. Lausnina er að finna annars staðar, hlýtur að vera annars staðar, því að rökin gilda hvort sem þú, eins hv. þingmaður sagði, tekur skattinn núna eða eftir á, það er áfram áhætta á markaði með þá fjármuni sem eru þá með eða án skatts. Það breytir engu um röksemdafærslu hv. þingmanns hvort skatturinn er tekinn fyrir fram eða á eftir. Ef hann segir að áhættan sé á þann veg að það sé óásættanlegt að fara með þá áhættu á markað þá ættum við bara að sleppa því yfirleitt og vera með algjört gegnumstreymiskerfi. Þannig að spurningin er: Erum við að ávaxta þessa fjármuni til lengri tíma? Það er hægt að taka eitt og eitt dæmi um bankahrun hér og WOW-fall þar og faraldur en yfir lengri tíma, hvert erum við að fara? Erum við að tapa eða erum við að hagnast? Eru lífeyrisréttindi að aukast eða eru þau að minnka? Það er stóra spurningin. Ef þau eru þannig, og við erum bara almennt þannig í heiminum að ávöxtun á svona fyrirkomulagi er að lækka, þá eigum við að taka þetta uppsafnaða lífeyriskerfi algjörlega burt. Þá er það bara glatað. Þá var spurningin aldrei um það hvort við tökum skattinn fyrir eða eftir þegar við setjum inn í sjóðinn. En ef þau eru hins vegar að aukast þá er alltaf betra að taka eftir á. Það þýðir meiri lífeyrisréttindi og meiri tekjur fyrir ríkissjóð út af því að skatturinn var ávaxtaður líka. Lausnin á vandanum í dag er ekki að taka hagnaðinn úr lífeyriskerfinu seinna. Ef lífeyriskerfið er þannig að það er að tapa (Forseti hringir.) þá er lausnin á því að fara í gegnumstreymiskerfi en ekki að viðhalda uppsöfnunarkerfi.