Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[17:20]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 (gjaldmiðlaáhætta og upplýsingagjöf til sjóðfélaga). Það lætur lítið yfir sér, þetta eru fimm greinar sem við erum að fjalla um, en þær eru veigamiklar og geta haft talsverðar breytingar í för með sér. Við erum auðvitað í grunninn alltaf að velta fyrir okkur hvernig lífeyriskerfi við viljum hafa. Á ríkið að sjá um að borga lífeyri eða á launþeginn að safna upp í sérstakan sjóð? Við höfum valið það kerfi að launþeginn safni í sérstakan sjóð með framlagi af vinnu sinni, með framlagi frá atvinnurekanda, og þannig er búinn til höfuðstóll sem verður svo greiddur út á einhverjum tíma sem getur verið mislangur eftir því hversu lengi viðkomandi lifir. Kerfið okkar er þannig að við búum til skuldbindingu í lífeyrissjóðnum þannig að ef ég fer á lífeyri 67 ára þá þarf lífeyrissjóðurinn að borga mér þangað til ég hrekk upp af, hvort sem það verður þegar ég er 69 ára eða 109 ára. Lífeyrissjóðurinn ber þessa skuldbindingu gagnvart mér til æviloka. En minn lífeyrissjóður hefur líka tekið að sér ýmsar aðrar skuldbindingar. Hann hefur tekið að sér m.a. að borga konunni minni ekknabætur og ef ég er svo fjörugur að ég eignast börn fram á gamalsaldur þá er greiddur út sérstakur barnalífeyrir. Síðast en ekki síst er samtrygging í þessu kerfi okkar sem snýr að örorkubyrði lífeyrissjóðanna, sem er talsverð. Það var auðvitað ákveðið á sínum tíma þegar lífeyrissjóðir urðu til í gegnum kjarasamninga að í þeim ætti að vera samtrygging þannig að við værum að verja hvert annað fyrir áföllum. Það hlutverk lífeyrissjóðanna er ekkert oft til umræðu. Þessi samtrygging sem er í lífeyrissjóðunum hefur virkað vel fyrir marga. Okkur getur greint á um hversu háa upphæð lífeyrissjóðirnir eru að greiða en þeir eru oft skammaður fyrir skerðingarnar frá ríkinu, því miður. Þær eru oft, eins og margir hafa nefnt, bara 100%. Þannig eru lífeyrissjóðirnir gerðir að blóraböggli vegna lélegrar þátttöku ríkisins í greiðslu bæði örorkulífeyris og ellilífeyris.

Lífeyrissjóðakerfið okkar er alltaf að stækka og stækka og eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi hér gætum við verið að horfa á kerfi sem verður að vaxa fram á sjötta tug þessarar aldar, allt til 2050, 2060. Allan þennan tíma mun kerfið vaxa af því að það eru fleiri að borga inn í kerfið heldur en eru að taka út úr því. Þjóðin hefur verið tiltölulega ung en hún er að eldast og skuldbindingar lífeyrissjóða til lengri tíma munu bara vaxa og vaxa. Á einhverjum tímapunkti, eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan, verða færri að borga inn í þá heldur en eru að taka út úr þeim. Þá skiptir máli að við höfum farið vel með fjármunina og ávaxtað okkar pund. Það skiptir máli.

Þetta frumvarp er væntanlega fram komið vegna þess að lífeyrissjóðir hafa óskað eftir því að hafa fleiri ávöxtunarmöguleika, fleiri kosti til að ávaxta peningana. Við vitum hversu fyrirferðarmiklir lífeyrissjóðirnir eru orðnir á innlendum markaði þegar eignir þeirra eru orðnar meiri en 6.000 milljarðar. Það eru margföld fjárlög íslenska ríkisins. Væntanlega eru upphæðin orðin meira en 6.000 milljarðar og fjárfestingarþörf þeirra er metin á vel yfir 400 milljarða á hverju ári sem lífeyrissjóðirnir þurfa að koma í vinnu til þess að geta staðið við þær skuldbindingar sem þeir hafa. Miðað við áætlaða útreikninga þurfa þeir 2,5% ávöxtun a.m.k. á hverju ári til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar. Væntanlega þarf ávöxtunin að vera meiri vegna hækkandi lífaldurs þjóðarinnar. Sú staða blasir við. Vegna þess að þjóðin er að eldast þarf ávöxtun lífeyrissjóðanna að verða meiri eða þá að fólk fari seinna á lífeyri, sem hefur verið til umræðu lengi. Það eru ýmsar áskoranir sem lífeyrissjóðir standa frammi fyrir og þurfa að vinna með.

Lífeyrissjóðirnir, til þess að vera ekki of fyrirferðarmiklir á innlendum markaði, hafa óskað eftir því að fá að fara út með meira en bara helminginn af því sem þeir eru með í höndunum hverju sinni. Þetta frumvarp er leið til að bregðast við því ákalli lífeyrissjóðanna að hafa fleiri ávöxtunarmöguleika. Í lok þess tíma sem hér um ræðir í þessu frumvarpi, sem er til 2036, sjáum við að lífeyrissjóðirnir geta ávaxtað sitt pund upp á 65% erlendis. Krafa lífeyrissjóðanna sjálfra var ekki að þeir fengju 1% á ári til 2036 heldur að þetta yrði gert þannig að þeir fengju 2–3% og þetta yrði búið til á kannski fimm til tíu árum í mesta lagi, en við því var ekki orðið. En það var þó komið til móts við lífeyrissjóðina þannig að það væri ekki bara 1% allan tímann heldur er verið að tala um 1,5% fyrstu árin sem síðan breytist og fer niður fyrir 1% seinni hlutann.

Þetta er bara hið ágætasta mál í sjálfu sér þó að einhverjir hafi viljað ganga lengra. Það er ágætt mál að lífeyrissjóðirnir fái möguleika til aukinna fjárfestinga erlendis.

Það er annað sem mig langar að nefna hér er gjaldmiðlaáhættan sem er nefnd í þessu öllu saman. Það eru allir skíthræddir við lífeyrissjóðina af því að þeir geta með framferði sínu bæði styrkt krónuna og líka fellt hana. Við erum með þennan gjaldmiðil og það er auðvelt að hringla með hann og lífeyrissjóðirnir vegna sterkrar stöðu sinnar geta svo sannarlega gert það. Og þetta hefur verið þannig að ef lífeyrissjóður er búinn að fjárfesta upp í 50% og svo verður gengisfelling þá þarf hann að selja. Og ef ávöxtun lífeyrissjóðsins erlendis er betri en menn reiknuðu með þá þarf hann líka að selja. Lífeyrissjóðirnir hafa aldrei þorað að nýta sér þessa möguleika sem boðið er upp á, að fjárfesta allt að 50% erlendis, heldur hafa þeir verið fyrir neðan þetta mark. Þeir sem hæst hafa farið, hafa farið upp í sirka 45% af því að ef þeir færu upp í 50% markið væru þeir alltaf í þeirri stöðu, vegna breytinga á gengi krónunnar eða hækkandi hlutabréfaverðs í útlöndum, að vera neyddir til að selja. Þetta er eitthvað sem er verið að skoða í þessu frumvarpi en þó ekki eins og lífeyrissjóðirnir hefðu kosið. Lífeyrissjóðirnir telja að það hefði mátt gera þetta með öðrum hætti. Ef lífeyrissjóðirnir eru komnir upp í markið, 65%, og svo gerist eitthvað og krónan fellur, þá mega þeir heldur ekki kaupa á þeim tímapunkti. Það getur gert það að verkum að lífeyrissjóðirnir missa af góðum fjárfestingartækifærum af því að krónan hefur fallið eða af því að ávöxtun lífeyrissjóðanna var svo góð á hlutabréfunum. Það þarf bara að stoppa fjárfestingar sem gætu verið góðar. Lífeyrissjóðirnir bentu á þetta m.a. í umsögnum í fyrra. Þetta er málsliður í frumvarpinu sem hljóðar svona:

„Meðan svo stendur á er lífeyrissjóði óheimilt að auka við gjaldmiðlaáhættu sína skv. 1. og 2. mgr. 36. gr. d með kaupum á eignum í öðrum gjaldmiðli en skuldbindingar hans eru í þar til leyfilegum mörkum um gjaldmiðlaáhættu er náð.“

Þarna er alltaf verið að hugsa um gjaldmiðlaáhættu. Það er alltaf verið að hugsa um krónuna. Landssamtök lífeyrissjóða sögðu í áliti sínu:

„Æskilegt væri að í skýringum með breytingunni kæmi fram að markmið hennar sé að tryggja lífeyrissjóði, sem almennt er með skuldbindingar í íslenskum krónunum, fullt svigrúm til að eiga áfram viðskipti með erlendar eignir í eignasafninu.“

Það skiptir auðvitað lífeyrissjóði máli að þeir fái á hverjum tímapunkti að meta hver sé hagstæðasta fjárfesting sem þeir geta farið í. Það finnst mér eitthvað sem þurfi að taka tillit til, það megi ekki stoppa lífeyrissjóðina bara vegna þess að það gæti falist í því einhver gengisáhætta. Þá er verið að nota lífeyrissjóðum í öðrum tilgangi en þeim að bæta lífeyrisréttindi fólks til lengri tíma.

Ég held, virðulegur forseti, að við verðum að horfa á stöðu lífeyrissjóðanna hér innan lands sem er rosalega bólgin. Einhvern tíma heyrði maður nú slagorðið „Hverjir eiga Ísland?“ Ég held að lífeyrissjóðirnir eigi orðið stóran hluta af Íslandi vegna þess að við erum með þetta söfnunarkerfi sem gerir að verkum að lífeyrissjóðirnir hafa þurft að koma fjármagni í vinnu og það hefur ekki verið gert nema með fjárfestingum, annaðhvort í skuldabréfum eða hlutabréfum eða með því að kaupa aðrar eignir þannig að fyrirferð lífeyrissjóðanna innan lands hefur verið mikil og í mörgum tilfellum haft neikvæð áhrif á aðra sem hafa verið t.d. í fjárfestingum. Lífeyrissjóðirnir eru sterkir og hæstv. ráðherra nefndi einmitt ruðningsáhrif, orð sem stundum notað í orðræðu um það að hinn stóri getur rutt hinum minni frá. Þannig hafa t.d. stór og sterk fyrirtæki rutt smáfyrirtækjum í burtu vegna þessara ruðningsáhrifa. Þau hafa haft mikil áhrif á markaði og þannig hafa lífeyrissjóðirnir verið. Þeir hafa verið stóri bróðir á markaði. Þeir eiga stóran hluta af íslenskum hlutabréfamarkaði. Þetta hefur stundum haft áhrif á möguleika t.d. almennings til að fjárfesta í hlutabréfum og gert það að verkum að hlutabréf hafa kannski hækkað meira en góðu hófi gegnir vegna háttsemi lífeyrissjóðanna á markaði, sem er auðvitað bara eðlileg vegna fjárfestingarskyldu þeirra, þeir þurfa að fara í fjárfestingar. Þetta þarf allt að skoða og þess vegna óskuðu lífeyrissjóðirnir eftir því að þetta myndi gerast örar og hraðar til að þeir gætu farið að nýta peningana á stærra sviði heldur en á íslensku sviði. Ég skil óskir lífeyrissjóðanna. En ég held, eftir allt sem sagt hefur verið, að ég sé að verða kominn á þá skoðun að styðja þetta frumvarp þó að það gangi ekki eins langt eins og ég hefði kosið.