Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[17:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni hans ræðu. Við tókumst aðeins á um andstæðar skoðanir okkar á lífeyriskerfinu og ég heyri að hv. þingmaður styður þetta kerfi vel og innilega. Því langar mig að spyrja hann, vegna þess að við vorum að tala um ávöxtun og alls konar hluti: Núna eru nærri 30 lífeyrissjóðir í landinu með tilheyrandi stjórnum og kostnaði, finnst honum eðlilegt eða væri ekki eðlilegra að það væru færri lífeyrissjóðir og minni kostnaður í kringum þá? Nú fara margir lífeyrissjóðir á erlenda markaði og það hefur alltaf verið svolítill huliðshjálmur yfir kostnaði lífeyrissjóðanna við erlendan eignarhlut þeirra, ógagnsæi varðandi hversu mikill þessi kostnaður er. Hann virðist vera settur þannig fram að það er eiginlega vonlaust að átta sig á því hver fær kostnaðinn, hvernig viðkomandi er valinn og hversu mikill kostnaðurinn við þetta er. Finnst honum þetta eðlileg vinnubrögð og finnst honum ekki kominn tími til að allt er varðar kostnað lífeyrissjóða sé gagnsætt og uppi á borðum, þannig að það fari ekki á milli mála þegar verið er að gambla á markaði erlendis með eignir almennings og að þeir sem eru í sjóðunum hafi fyrir framan sig á ársfundi lífeyrissjóða nákvæma útlistun á því hver kostnaðurinn er fyrir viðkomandi lífeyrissjóð, á allri umsýslu sjóðanna? Og finnst honum eðlilegt að þessum kostnaði sé skipt niður á svona marga lífeyrissjóði?