Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[17:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og verð bara að benda öllum á það að þeir sem borga í lífeyrissjóði eiga rétt á að mæta á ársfund viðkomandi lífeyrissjóðs. Það eru allir velkomnir þangað. Því miður er staðreyndin sú að ákveðinn kostnaður, t.d. umsýslukostnaður lífeyrissjóða erlendis, er bara ekki gagnsær. Hann er hvergi uppgefinn. Ég hef aldrei fengið að sjá hverjir eru að sýsla með þetta, hverjir borga og hvernig þetta er. Ég veit að það hefur verið reynt að finna út úr þessu sem sýnir bara ógagnsæið.

Við vorum líka að tala um að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði og þá var bent á að það myndi hafa áhrif á ávöxtun framtíðar og þar af leiðandi skerða getu kerfisins til að borga lífeyri og annað.

En hvað segir hæstv. hv. þingmaður um þetta: Nú höfum við orðið vitni að því að lífeyrissjóðakerfið gengur vel, góð ávöxtun og nú ætla þeir að borga viðkomandi einstaklingi 10.000 kr. aukalega á mánuði af því svo vel hefur gengið. Ef viðkomandi er inni í almannatryggingakerfinu þá borgar hann skatt af þessu og síðan skerðingar. Því má viðkomandi þakka fyrir að fá 3.000 kr. af þessum 10.000 kr. En ef þessi einstaklingur er fyrir utan almannatryggingakerfið, hálaunamaður sem þarf ekki að vera inni hjá Tryggingastofnun ríkisins, og fær líka þennan 10.000 kall þá skilar það honum ekki undir 5.500 kr. Finnst hv. þingmanni þetta sanngjarnt? Talað er um að það sé svo mikilvægt að fá þessa ávöxtun erlendis, en hún skilar sér ekkert í vasa þeirra sem þurfa á að halda heldur að stærstum hluta í ríkissjóð. Finnst honum það í lagi?