Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[17:45]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna þeim skrefum sem hér eru lögð til til að rýmka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis og auka þannig möguleika þeirra til áhættudreifingar. Fyrir lítið, opið hagkerfi eins og Ísland er alþjóðleg eignadreifing algjör frumforsenda þess að hægt sé að hámarka arðsemina af eignum sjóðfélaga og þar með í raun forsenda þess að sjóðsöfnunarkerfið skili þeim árangri sem við ætlumst til af því. Hér er verið að liðka fyrir áhættudreifingu og það er gert af ákveðinni varfærni. Hugsanlega hefði mátt ganga lengra en hér er verið að hækka heimildirnar í áföngum með tilliti til greiðslujöfnuðar og þá til að raska ekki efnahagslegum stöðugleika. Ég held að það sé skynsamleg nálgun sem hér er farin. Það er líka fagnaðarefni að verið sé að gera það heimilt að birta yfirlit og upplýsingar til sjóðfélaga rafrænt í stað pappírssendinga. Ég held að fáir muni sakna þess að fá þetta inn um lúguna og að þetta sé bara löngu tímabær breyting.

Ég flutti ítarlega ræðu um þetta mál þann 23. maí síðastliðinn þegar hæstv. fjármálaráðherra flutti það í fyrsta sinn og ég stend við og vísa til þeirra sjónarmiða sem þar komu fram. Ég vil hins vegar nota tækifærið núna, vegna þess að við erum að ræða hér sjóðsöfnunarkerfi lífeyrisréttinda, til að minnast aðeins á það sem ég held að sé kannski mest óánægja með í þessu kerfi og það er samspil kerfisins við greiðslur almannatrygginga og við skattkerfið. Þetta samspil hefur þær afleiðingar að aukin uppsöfnun réttinda í lífeyrissjóðum hefur í mjög ríkum mæli verið nýtt fyrst og fremst til þess að spara ríkinu útgjöld til lífeyrisgreiðslna almannatrygginga, þ.e. frá Tryggingastofnun ríkisins, og þá á kostnað þess að þessi uppsöfnun nýtist sem raunverulegur ábati fyrir sjóðfélaga. Hér felst í mínum huga óréttlætið fyrst og fremst í því hvað greiðslur almannatrygginga byrja að skerðast neðarlega í tekjustiganum. Við erum að tala um frítekjumark upp á 25.000 kr. og allar lífeyrissjóðstekjur umfram þessar 25.000 kr. koma til skerðingar á greiðslum frá Tryggingastofnun. Og hvað þýðir þetta? Tökum bara dæmi um eldri konu sem hefur alið, segjum þrjú, fjögur börn, borið hitann og þungann af heimilishaldinu eins og oft er og var hjá þessari kynslóð og unnið svo slítandi störf þess á milli á allt of lágum launum. Segjum að þessi kona hafi náð að safna sér réttindum upp á 150.000 kr. Ég held að það sé reyndar akkúrat miðgildi lífeyrissjóðstekna hjá konum, ef ég man rétt, eftir að hafa skoðað mælaborð Tryggingastofnunar. 150.000 kr. og nú fer konan á eftirlaun með þessi réttindi úr lífeyrissjóði. Þá situr aðeins þriðjungur eftir af þessum lífeyrissparnaði sem auknar ráðstöfunartekjur í hverjum mánuði, 50.000 kr. 100.000 kr. renna til ríkisins vegna skatta og skerðinga. Hér er ég sem sagt að lýsa jaðarskattbyrðinni. Þetta er 67% jaðarskattbyrði. Og ábatinn af þessari lífeyrissjóðsöfnun er sem sagt étinn upp með þessum hætti í formi skatta og skerðinga.

Ég held að þetta stríði gegn réttlætisvitund fólksins í landinu og ég er sannfærður um að við verðum að gera gangskör að því að hífa upp þetta frítekjumark vegna lífeyristekna. Það er aðgerð sem myndi skila hlutfallslega mestum ábata til tekjulægra eftirlaunafólks og fela í sér lækkun á jaðarskattbyrði þessara hópa. En þetta er nú svona útúrdúr og snertir kannski ekki beint það frumvarp sem hér er til umræðu en þetta snertir þó lífeyrissjóðakerfið okkar og samspil þess við annars vegar skattkerfið og hins vegar lög um almannatryggingar. Ég vil benda á að lífeyrissjóðirnir sjálfir, Landssamtök lífeyrissjóða, gera sérstaka athugasemd við þessa miklu jaðarskattbyrði sjóðfélaga, nú síðast í umsögn um fjárlagabandorm ríkisstjórnarinnar vegna ársins 2023. Þar er talað um háværar raddir sjóðfélaga sem telja að hér ríki hrópandi óréttlæti sem taka verði af. Þetta er tilfinning fólks. Það er bara mjög almenn óánægja með þetta meðal eldra fólks og það er eitthvað sem við getum ekki horft fram hjá, þ.e. ef við viljum viðhalda hér góðri sátt og skapa fyrirkomulag eftirlauna sem er sátt um.

Að því sögðu þá styð ég eindregið, eins og kom fram í upphafi ræðu minnar, þær breytingar sem eru lagðar til í þessu frumvarpi og ég vona bara að málið fái vandaða og góða umfjöllun í þinginu á næstu mánuðum svo það geti orðið að lögum sem fyrst.