Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[18:08]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð í minn garð. Jú, vissulega, ég hef unnið í tveimur stórbönkum í Noregi, DMB og Nordea, sem eru tveir stærstu „shipping“-bankar heims, og hef kynnt mér aðeins olíusjóðinn. Ég fór meira að segja í starfsviðtal einu sinni á sínum tíma. Olíusjóðurinn á um 1% af öllum hlutabréfum í heiminum í kauphöllum. Í Evrópu eiga þeir um 2% af öllum hlutabréfum þar. Þeir eiga mikið safn fasteigna um allan heim og þykir það mikill akkur fyrir fyrirtæki ef norski olíusjóðurinn er að kaupa hlut í þeim, ég tala nú ekki um að fá stjórnarmann, það þykir vera mikill gæðastimpill fyrir þau fyrirtæki, stórfyrirtæki. Samsetningin hjá þeim — þetta snýst líka svolítið um lausafé hjá þeim. Þetta er lífeyrissjóður í grunninn, þetta heitir Statens pensjonskasse. Þeir þurfa náttúrlega eiga lausafé fyrir skuldbindingar framtíðarinnar. Ég þekki ekki í sjálfu sér þær reglur. Ég veit hins vegar varðandi ávöxtunina að þeir leggja fram fjárlög með og án peninga frá olíusjóðnum vegna þess að það er millifærslukerfi, ákveðnar prósentureglur, þar sem þeir færa yfir á fjárlögin og geta sett þar inn til að fjármagna ríkissjóð.

Það sem mér finnst líka vera mikilvægt í þessu er samsetningin, ég kom kannski ekki nógu vel inn á hana, það er samsetningin varðandi lausafé. Sem sagt: Nú ætlarðu að fjárfesta erlendis og þá er mjög mikilvægt að geta haft fjárfestinguna þess eðlis að það sé auðvelt að losna út úr henni. Það er miklu meira mál að selja fasteign en bandarísk ríkisskuldabréf og hlutabréf eru að vissu leyti áhættusamari að mörgu leyti en bandarísk ríkisskuldabréf. Það geta að sjálfsögðu verið meiri hækkanir á hlutabréfum. Ég hefði viljað sjá þannig samsetningu á þessum erlendu fjárfestingum, að segja: Heyrðu, ókei, þið verðið að hafa svona mikinn hluta, sem er þá lausafé eða fé sem er auðvelt að leysa út, og kaupa íslenskar krónur. Það er stóra vandamálið. Og fjármálakreppan 2008 var fyrst og fremst lausafjárkrísa.