Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[18:13]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar sitt, sem var mjög fróðlegt og gott innlegg. Ég tek alveg heils hugar undir að það sé mjög mikilvægt að auka gagnsæi varðandi lífeyrissjóðina. Ég hef ekki rannsakað það sérstaklega en mér hefur alltaf þótt þeir allt of margir og að yfirbyggingin sé of kostnaðarsöm. Ég velti því hér upp að jafnvel núna þegar á að fara að auka erlendar fjárfestingar, hvort þeir gætu gert það sameiginlega af því að það þarf mjög mikla sérfræðiþekkingu til að fara inn á erlenda markaði. Hvort þeir geti þá — ég nota mjög slæmt orð hérna, „púllað sína rísorsa“, sem sagt tekið saman, búið til sérfræðiþekkingu, sérfræðieiningu, til að stunda þessar erlendu fjárfestingar. Og það er nákvæmlega það sem olíusjóðurinn gerir. Ég get tekið dæmi í kringum 2008-krísuna, þá fóru þeir í krísu-„mode“, þ.e. fóru í það sem er kallað „emergency mode“ á ensku og stórgræddu raunverulega. Af hverju var það? Jú, af því að í krísu, í efnahagskreppu, efnahagsniðursveiflu, þá er lausafé kóngurinn. Þeir sem eiga lausafé eða pening geta keypt eignir á ódýru verði, og þeir rokgræddu á kreppunni. Það voru margir sem græddu mikinn pening af því að eignaverð hrynur niður og þá geturðu keypt ódýrt. Það er það sem lífeyrissjóðirnir eiga að gera, að stíla inn á það, þeir eru það öflugir, að nota lausafé sitt í niðursveiflum og vera tilbúnir til þess að grípa tækifærið þegar það gefst. En það þarf að byggja upp mikla þekkingu á erlendum mörkuðum og ég vonast til þess og vona innilega að lífeyrissjóðirnir beri gæfu til að byggja upp þessa þekkingu og gera þetta sjálfir, ekki að vera útvista þessum kaupum og þekkingu á erlendum mörkuðum. Það er langbest að gera það sjálfur. Þeir sem hafa annað sjónarhorn, annan bakgrunn, gengur rosalega vel af því að þeir eru ekki fastir í hjarðhegðuninni. Ég held að þetta sé að mörgu leyti gott frumvarp en ég held og ég spái því að það eigi eftir að koma aftur fram svona frumvarp sem verður enn þá öflugra þar sem verður skipt bæði varðandi lausafé, fasteignir og fastafé og líka eitthvað varðandi skiptingu áhættu á mörkuðum. Og þekking á mörkuðunum, það er ekki bara eitt „júnit“ erlendis, það eru margir markaðir erlendis og þar þurfa allir ákveðna sérþekkingu.